Við ræðum við formann Sólveigu Önnu í kvöldfréttum Stöðvar 2 og sjáum myndir frá héraðsdómi Reykjavíkur en fjölmennt lið Eflingarfélaga mætti þangað í dag þegar krafa ríkissáttasemjara um að Efling afhendi félagatal sitt var tekin fyrir.
Óvissustig almannavarna er í gildi vegna óveðurs sem gengur yfir landið. Við verðum í beinni frá samhæfingarmiðstöð almannavarna sem var virkjuð í hádeginu vegna ástandsins.
Verðbólga mælist nú 9,9 prósent og hefur ekki verið meiri síðan síðasta sumar. Við fáum hagfræðing frá ASÍ í settið, en hún telur að stjórnvöld og fyrirtæki geti brugðist betur við og dregið úr verð- og gjaldskrárhækkunum.
Þá köfum við ofan í greiningar á sósumarkaði landsins sem má finna í nýjum úrskurði Samkeppniseftirlitsins og verðum í beinni frá matreiðslunámskeiði þar sem fólki verður kennt að elda á umhverfisvænan hátt.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan 18:30.