Úrslitaleikurinn fer fram á Wembley, sem rúmar 90.000 áhorfendur, þann 26. febrúar.
Ákveðið hefur verið að á bakvið bæði mörk vallarins verði svæði þar sem 867 áhorfendur mega standa. Það er í fyrsta sinn í 35 ár þar sem að stuðningsmenn fá að standa á úrslitaleik í enskum fótbolta.
Leikvöngum í efstu deildum Englands var öllum breytt fyrir um þrjátíu árum þannig að öllum áhorfendum væri ætlað að sitja. Þetta var gert í kjölfar þess að 97 stuðningsmenn Liverpool létu lífið í troðningi á Hillsborough-leikvanginum árið 1989, á undanúrslitaleik í enska bikarnum.
Stuðningsmenn á mörgum leikvöngum hafa engu að síður staðið á leikjum, við sæti sín, þrátt fyrir aðvaranir yfirvalda um hættu sem af því gæti stafað.
Frá og með yfirstandandi leiktíð mega svo félög hafa svæði á sínum leikvöngum þar sem áhorfendur mega standa. Sú breyting var gerð eftir að fimm félög tóku þátt í prófunum seinni hluta síðustu leiktíðar. Þetta voru Chelsea, Manchester City, Manchester United, Tottenham og Cardiff.
Eftirvæntingin fyrir úrslitaleik deildabikarsins er væntanlega mikil í röðum stuðningsmanna Manchester United og Newcastle. United getur bundið enda á sex ára bið eftir titli og Newcastle spilar sinn fyrsta úrslitaleik á Wembley á þessari öld.