Allesandra vann keppnina með laginu Queen of kings og mun flytja það í Liverpool í maí næstkomandi. Lagið má heyra í spilaranum hér að neðan:
Allessandra sagði sér hafa hlotnast mikill heiður og að hún muni gera norsku þjóðina stolta, eftir að úrslit keppninnar voru tilkynnt.
Úlfarnir heita Gaute og Ben
Á úrslitakvöldinu kom raftónlistartvíeykið Subwoolfer fram. Meðlimir Subwoolfer vöktu mikla athygli í Eurovision-keppninni í fyrra þegar þeir komu fram grímuklæddir og fluttu lag um úlf sem þarf að gefa banana ellegar borði hann ömmu þeirra.
Allt frá því að tvíeykið keppti í undankeppninni í fyrra hafa nöfn og útlit meðlima þess verið á huldu. Í kvöld felldu þeir hins vegar grímurnar og í ljós kom að þeir heita Gaute Ormåsen og Ben Adams. Í myndskeiði í frétt Verdens Gang má sjá atriði þeirra og bút úr viðtali við þá, sem tekið var fyrr í vikunni.
Þeir segja að nöfn þeirra hafi verið eins konar opinbert leyndarmál enda hafi allir sem þekkja þá þekkt þá á röddum þeirra þrátt fyrir grímurnar og dulnefnin Keith og Jim.
Þeir segja jafnframt að með því að fella grímurnar hafi þeir lokið fyrsta kaflanum í sögu Subwoolfer. Þeir muni áfram koma fram undir nafninu Subwoolfer en með breyttu sniði.
Líkt og greint var frá á dögunum mun Subwoolfer leggja leið sína til landsins í mars og koma fram í Söngvakeppni sjónvarpsins. Hvort það verði þeir Gaute og Ben sem koma fram eða gulu úlfarnir Keith og Jim verður að koma í ljós.