Veður

Suð­vestan­átt með éljum í dag og hvessir á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Skörp skil á austurleið ganga yfir landið snemma á morgun, fara hratt yfir og eru á bak og burt seinnipartinn.
Skörp skil á austurleið ganga yfir landið snemma á morgun, fara hratt yfir og eru á bak og burt seinnipartinn. Vísir/Vilhelm

Reikna má með suðvestanátt með éljum í dag en björtu með köflum á norðaustanverðu landinu. Það mælist enn allt að tíu stiga hiti á Austfjörðum nú í morgunsárið en hitastig fer lækkandi í dag og verður í kringum frostmark seinnipartinn.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að skörp skil á austurleið gangi yfir landið snemma á morgun, fari hratt yfir og séu á bak og burt seinnipartinn.

„Það hvessir verulega við þessi skil með stormi eða roki í stuttan tíma. Auk þess má búast við slyddu, snjókomu og jafnvel eldingum. Viðvörun er gefin út og folki er bent á að sýna varkárni og fylgjast vel með veðurspám. Síðar snýst í suðvestan hvassviðri og þá byrja él á nýan leik. Hiti verður víða um frostmark á morgun en nálægt skilunum hlýnar um tíma.

Áframhaldandi suðvestanátt á miðvikudag og fimmtudag með éljum en yfirleitt bjart austanlands. Vægt frost um allt land.

Svo kemur ný lægð á föstudag með snjókomu eða rigningu og þá hlýnar aftur,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Sunnan stormur með snjókomu eða slyddu, en snýst í suðvestan hvassviðri með éljum þegar líður á daginn. Hiti víða um eða undir frostmarki, en upp í 5 stig með suðurströndinni.

Á miðvikudag: Minnkandi suðvestlæg átt og él, en yfirleitt bjart norðaustantil, 8-15 m/s seinni partinn. Frost 2 til 9 stig. Norðlægari um kvöldið og kólnar.

Á fimmtudag: Suðvestlæg eða breytileg átt 8-15 m/s og dálítil él, einkum vestantil. Kalt í veðri.

Á föstudag: Gengur í stífa suðaustlæga átt. Víða snjókoma en síðar rigning sunnantil, sums staðar talsverð eða mikil úrkoma. Hvöss suðvestanátt þegar líður á daginn með skúrum. Frost 0 til 8 stig, en allt að 6 stiga hiti við suðurströndina.

Á laugardag: Ákveðin sunnanátt og talsverð eða mikil rigning víða um land en þurrt að kalla norðaustantil. Hlýtt í veðri.

Á sunnudag: Útlit fyrir suðvestlæga átt með éljum, hiti um eða undir frostmarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×