Ráðamenn hafa biðlað til íbúa um að hunsa ekki viðvörunarflauturnar en þingkonan Lesia Vasylenko segir á Twitter að fyrir utan hávært flautið ríki þögn í höfuðborginni Kænugarði, „eins og fyrir storm“.
Samkvæmt færslu sem ríkismiðillinn Suspilne birti á Telegram nú fyrir stundu heyrast sprengingar í Kremenchuk í Poltava. Þá eru loftvarnasveitir á svæðinu sagðar í viðbragðsstöðu. Poltava er í miðri Úkraínu og liggur að Sumy og Kharkív.
Air raid alert all over Ukraine.
— Anton Gerashchenko (@Gerashchenko_en) February 10, 2023
Threats of a massive Russian rocket attack.
All in Ukraine advised to stay in shelters.#RussiaIsATerroristState pic.twitter.com/OueHVEY7xu
Samkvæmt Oleh Synyehubov, ríkisstjóra Kharkív, gerðu Rússar árás á borgina Kharkív og nærliggjandi svæði um klukkan fjögur í morgun að staðartíma. Meðal skotmarka voru mikilvægir innviðir. Eldar kviknuðu í kjölfar árásanna en greiðlega gekk að slökkva þá.
Íbúar eru víða án rafmagns en enginn féll í árásunum, að sögn Synyehubov.
Reuters hefur eftir orkumálayfirvöldum að Rússar hafi gert árásir á orkuinnviði í morgun.
Úkraínumenn undirbúa sig nú undir umfangsmikla árás og stórsókn Rússa á næstu dögum og vikum, mögulega í kringum 24. febrúar. Þá verður ár liðið frá því að innrásin hófst. Rússar hafa þegar gefið í sókn sína í austurhluta landsins.