Unnið er hörðum höndum að því í Tyrklandi og Sýrlandi að finna þá sem enn kunna að vera á lífi í rústum húsa eftir skjálftana öflugu.
Þrátt fyrir að vonir fari dvínandi um fólk finnist á lífi í rústunum berast enn fregnir af giftusamlegum björgunum.
Þannig greinir Reuters frá því að í Samandag-héraði Tyrklands hafi björgunarsveitir grafið upp tíu daga gamlan strák og móðir hans upp úr rústum húsnæðis þeirra.
Bæði voru með meðvitund og voru flutt á sjúkrahús. Í Diyarbakir voru mæðgin einnig grafin upp á lífi í morgun, um eitt hundrað klukkustundum eftir skjálftana.
Reuters greinir einnig frá því í Sýrlandi að á einum stað hafi björgunarsveitir grafið og grafið þangað til þeir rákust á berar tær. Tærnar voru í eigu stúlku sem reyndist vera á lífi, klædd í bleik náttföt.
Staðfest hefur verið að minnst 21 þúsund hafi farist í skjálftunum og líklegt er talið að sú tala muni hækka töluvert.
Níu manna íslenskt teymi á vegum Landsbjargar og landhelgisgæslunnar vinnur nú að svæðisstjórn á Gaziantep svæðinu.
Rætt var við Sólveigu Þorvaldsdóttir, sem fer fyrir íslenska hópnum, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.