Frá þessu greinir formaðurinn, Sólveig Anna Jónsdóttir, í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Það hefur verið átakanlegt að fylgjast með íslensku valdastéttinni grafa sig dýpra í nálgun valdbeitingar í garð félagsfólks í Eflingu á síðustu vikum. Meira að segja eftir algjört siðferðislegt gjaldþrot þvingana-afstöðu Aðalsteins Leifssonar skulu Samtök atvinnulífsins enn senda fulltrúa sinn í fjölmiða til að tala fyrir áframhaldandi ríkisvalds-ofbeldi gegn verkafólki og lægst launaðasta fólki landsins,“ skrifar Sólveig Anna.
Hún ásamt fleiri félögum hennar í Eflingu hafa ítrekað gert kröfu um að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segði sig frá deilunni, eftir að Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að Eflingu bæri ekki að afhenda sáttasemjara kjörskrá sína, svo hægt væri að greiða atkvæði um miðlunartillögu hans.
Aðalsteinn óskaði eftir því við félags- og vinnumarkaðsráðherra í gær að víkja sæti í deilunni og í dag var Ástráður Haraldsson héraðsdómari settur í embætti sáttasemjara í þessari tilteknu deilu í hans stað.
Sólveig Anna segist ánægð með að Ástráður hafi verið settur í embætti ríkissáttasemjara.
„Ég mun mæta ásamt samninganefnd okkar Eflingarfélaga til samningafundar um leið og boðað verður til hans. Ég trúi því að skipun nýs sáttasemjara geti orðið upphaf að nýjum og betri kafla í þessari löngu kjaradeilu, sem hefur snúist upp í að verða deila ekki bara um kaup og kjör heldur um sjálfan samningsréttinn, okkar heilagasta rétt. Ég treysti því að hann verði framvegis virtur,“ skrifar Sólveig Anna.