Frá þessu greinir TMZ. Að sögn fjölskyldumeðlima lést leikkonan eftir „stutt veikindi.“
Raquel kom fyrst fram á sjónarsviðið á miðjum sjöunda áratugnum og er einna þekktust fyrir bikiníatriðið svokallaða í kvikmyndinni One Million Years B.C frá árinu 1966. Atriðið hefur oft verið nefnt eitt kynþokkafyllsta atriði kvikmyndasögunnar og átti bikiníið sem hún klæddist þar eftir að hafa áhrif á baðfatatískuna næstu árin.
Raquel lék í fjölda kvikmynda á sjöunda og áttunda áratugnum og hlaut Golden Globe verðlaunin árið 1974 fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni The Three Musketeers.
Árið 1995 var hún á lista Empire tímaritsins yfir 100 kynþokkafyllstu stjörnur kvikmyndasögunnar og þá var hún sú þriðja á lista Playboy yfir 100 kynþokkafyllstu stjörnur tuttugustu aldarinnar.