„Sumt var mjög gott en það var sletti af tæknifeilum,“ sagði Erlingur. „Við finnum Kára (Kristján Kristjánsson) vel í fyrri hálfleiknum en svo fórum við að senda línusendingar sem voru ekki að virka. Það var eitthvað um misheppnaðar sendingar í seinni hálfleiknum. Annars var þetta flottur leikur með fullt af mörkum. Sérstaklega í fyrri hálfleik. Markvarslan góð og varnarleikurinn heilt yfir í lagi.“
Pavel Miskevich gekk til liðs við ÍBV fyrir stuttu og lék í dag sinn fyrsta leik fyrir félagið en lykilmaðurinn Rúnar Kárason var ekki með vegna meiðsla
„Ég held að hann hafi staðið sig ágætlega. Ég hef ekki kíkt á tölfræðina en hann var að taka nokkra mikilvæga bolta í byrjun seinni hálfleiks. Hann hélt okkur inni í leiknum. Þetta var strembið á köflum. Hann er mikill karakter inni á vellinum og það er það sem við þurfum.“
„Rúnar fékk slink á hnéð á æfingu í fyrradag og var aðeins bólginn í gær. Hann fór í meðhöndlun og lítur betur út í dag. Hann fer í skoðun á föstudaginn. Við erum vongóðir en tökum enga sjénsa.“
Fyrir skömmu var greint frá því að Erlingur yrði ekki áfram með Eyjaliðið að tímabilinu loknu. Ástæðan er tiltölulega einföld
„Það er klásúla í samningnum sem ég þurfti að staldra við og spyrja mig hvort ég ætlaði að nota eða ekki. Ástæðan í sjálfu sér er engin önnur en að taka hlé frá því að vera á hliðarlínunni. Það er fyrsta plan. Nýta tímann í annað og anda aðeins. Mögulega endurmennta mig, kíkja á námskeið og þvælast um Evrópu til að kíkja á æfingar og slíkt. Kíkja á dóttur mína (Söndru Erlingsdóttur, leikmann TuS Metzingen) í Þýskalandi. Það er meginpælingin.“

„Ég held þetta sé ágætis tímapunktur fyrir þessa stráka að fá nýtt andlit. Ég er ekkert hættur að starfa hjá félaginu ef félagið vill hafa mig í vinnu. Þá er ég alveg klár.“
„Það breytist ekkert,“ sagði Erlingur spurður út í hvort það væri enn meiri vilji í að gera vel á tímabilinu þar sem hann er á förum. „Það er alltaf vilji til þess. Það er ástæðan fyrir því að við erum hérna, allir. Það er eiginlega bara þannig,“ sagði Erlingur léttur.