Kórdrengir höfðu verið í viðræðum við FH um að Fimleikafélagið myndi taka yfir félagið. Þær samningaviðræður virðast þó hafa siglt í strand og Kórdrengir munu því ekki senda lið til keppni á Íslandsmót karla.
Eins og áður segir tekur Ægir sæti Kórdrengja í Lengjudeildinni, en Ægismenn höfnuðu í þriðja sæti 2. deildarinnar í haust.
„Mótanefnd KSÍ fundaði á föstudag um stöðu Kórdrengja og knattspyrnumóta sumarsins 2023 og stjórn KSÍ fundaði um málið í dag, laugardag,“ segir í tilkynningu KSÍ um málið.
„Stjórn KSÍ hefur ákveðið að taka þátttökutilkynningu Kórdrengja ekki til greina og byggir ákvörðun sína á grein 13.4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Kórdrengir munu því ekki taka þátt í mótum sumarsins. Hér er um að ræða Lengjudeild karla og Mjólkurbikar karla. Ljóst er að þessi ákvörðun hefur áhrif í öllum deildum Íslandsmóts meistaraflokks karla, nema í Bestu deild. Mótanefnd KSÍ vinnur nú hörðum höndum að því að gera nauðsynlegar breytingar á mótum.“
Eins og kemur fram í tilkynningunni hefur þetta áhrif á allar deildir Íslandsmótsins, nema Bestu-deildina. Þannig tekur KFG sæti Ægis í 2. deild, Hvíti riddarinn tekur sæti KFG í 3. deild, Hamar tekur sæti Hvíta riddarans í 4. deild og Álafoss tekur sæti Hamars í 5. deild.