Þetta kemur fram á vef Eflingar þar sem félagsmönnum félagsins eru veittar upplýsingar um hið mögulega verkbann sem aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins greiða nú atkvæði um.
„Komi til verkbanns mun Efling kalla saman félagsfólk til víðtækra mótmælaaðgerða gegn þeim atvinnurekendum sem beita því. Félagið biður félagsfólk að fylgjast með skilaboðum frá félaginu um það,“ segir á vef Eflingar.
Kjaraviðræður Samtaka atvinnulífsins og Eflingar sigldu enn og aftur í strand hjá Ríkissáttasemjara í gær.
Í framhaldinu boðaði SA allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn í Eflingu. Hún hófst í hádeginu og stendur þar til á miðvikudag. Verði verkbann samþykkt mun það taka gildi 2. mars næstkomandi.
Á vef Eflingar er verkbann útskýrt á þá leið að það sé þegar atvinnurekandi sendi starfsfólk sitt heim úr vinnu og neiti að greiða því laun.
„Verkbann er hugsað til að neyða verkafólk til að sætta sig við verri útkomu í kjarasamningagerð en ella,“ segir á vef Eflingar.
Þar kemur jafn framt fram að Efling muni ekki greiða neina styrki úr vinnudeilusjóði til félagsfólks vegna verkbanns, enda sé verkbann ekki á ábyrgð félagsins auk þess sem vinnudeilusjóður standi ekki undir þeim greiðslum.
Verði af hinu fyrirhugaða verkbanni hvetur Efling félagsmenn sína til þess að afla staðfestingu hjá vinnuveitenda sínum um hvort hann muni beita verkbanni.