Málefni áfangaheimila hafa komist í hámæli eftir að eldsvoði varð í einu slíku, úrræði undir merkjum Betra lífs í Vatnagörðum á föstudag. Fulltrúar frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og tæknideild lögreglu fóru inn á brunavettvang við Vatnagarða í morgun. Lögregla gefur ekkert upp í bili um rannsókn brunans en eigandi húsnæðisins telur að eldsupptök hafi verið af mannavöldum.
Ekkert lögbundið eftirlit er með starfsemi áangaheimila.
„Og við höfum reyndar kallað eftir því aðsettur verði rammi utan um rekstur áfangaheimila. Þannig verði til einhver lög eða rammi sem við gætum þá vísað til eða fylgt eftir,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Hefur tekið of langan tíma
Hún setur spurningamerki við það að hver sem er geti stofnað áfangaheimili, sérstaklega þar sem þau séu markaðssett til fólks í viðkvæmri stöðu. Þá bendir hún á að því hafi ítrekað verið vísað til ráðherra félagsmála hverju sinni að þörf sé á lagasetningu.
Er þetta ekki búið að taka of langan tíma?
„Jú, þetta hefur bara tekið mjög langan tíma. Og auðvitað er fullt af áfangaheimilum sem hefur gengið gríðarlega vel og bjargað mannslífum. Og kannski mættu þau þá fá meiri stuðning,“ segir Heiða.
Ábendingar um slæman aðbúnað á áfangaheimilinu höfðu borist Heiðu og öðrum borgarfulltrúum fyrir brunann. En hendur þeirra eru bundnar.
„Við höfum í rauninni ekkert meira um það að segja heldur en bara ef það væri óhreint heima hjá þér. En þegar fólk er í svona viðkvæmri stöðu og þegar þú ert að leigja og kannski býst við ákveðnum stuðningi þá er held ég mikilvægt að það sé meiri og þéttari rammi utan um það. Og nú veit ég ekkert hvort þetta heimili var frábrugðnara öðrum en ég held að þarna gætum við sem samfélag gert betur og ég held að við ættum að gera það.“