Handbolti

Teitur og félagar gulltryggðu efsta sæti riðilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson og félagar tryggðu sér efsta sæti B-riðils.
Teitur Örn Einarsson og félagar tryggðu sér efsta sæti B-riðils. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í þýska stórliðinu Flensburg unnu öruggan sjö marka sigur er liðið tók á móti Ystad frá Svíþjóð í B-riðli Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld. Lokatölur 30-23 og Flensburg hefur þar með tryggt sér sigur í riðlinum.

Það voru þó gestirnir í Ystad sem byrjuðu betur og liðið náði fjögurra marka forskoti strax í upphafi leiks í stöðunni 2-6. Heimamenn skoruðu þó næstu fimm mörk og hrifsuðu forystuna til sín, en aftur snéru liðsmenn Ystad leiknum sér í hag og staðan í hálfleik var 12-13, gestunum í vil.

Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af í síðari hálfleik, en þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum stigu heimamenn á bensíngjöfina og náðu upp fimm marka forskoti. Gestirnir voru aldrei nálægt því að ógna þeirri forystu og niðurstaðan varð sjö marka sigur Flensburg, 30-23.

Teitur skoraði eitt mark fyrir Flensburg í kvöld, en eins og áður segir tryggði liðið sér efsta sæti B-riðils með sigrinum. Liðið er með 16 stig þegar ein umferð er eftir, fimm stigum meira en Ystad sem situr í öðru sæti.

Valsmenn koma svo þar á eftir með sjö stig, en liðið mætir franska liðinu PAUC í kvöld í eiginlegum úrslitaleik um sæti í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Þá var Óðinn Þór Ríkharðsson markahæsti maður Kadetten Schaffhausen með átta mörk er liðið vann dramatískan eins marks sigur gegn Benfica í A-riðli, 27-28. Óðinn og félagar höfðu þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum, en Benfica þarf að fá í það minnsta eitt stig úr lokaleik sínum til að komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×