Bandaríkjamenn og aðrir í Atlantshafsbandalaginu hafa komið því á framfæri við yfirvöld í Kína að það yrði ekki vel séð ef Kínverjar myndu veita Rússum hjálparhönd með innrás þeirra í Úkraínu
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, opinberaði svo á sunnudaginn að í Hvíta húsinu hefðu menn áhyggjur af því að Kínverjar ætluðu að aðstoða Rússa og varaði hann við alvarlegum afleiðingum ef af því yrði.
Í frétt Wall Street Journal segir að Blinken og Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, hafi talað saman um málið á öryggisráðstefnunni í Münich um helgina en hafi ekki komist að neinni niðurstöðu.
Fregnir hafa sömuleiðis borist af því að Xi Jinping, forseti Kína, ætli sér í heimsókn til Moskvu á næstu mánuðum.
Ráðamenn í Kína hafa aldrei fordæmt innrás Rússa í Úkraínu né markvissar árásir þeirra á óbreytta borgara né ódæði rússneskra hermanna gegn borgurum. Þá hafa Kínverjar gagnrýnt refsiaðgerðir gegn Rússum og sagt að Rússum hafi verið ögrað.
Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og sérfræðingur í alþjóðamálum, sagði við fréttastofu á sunnudag að orð Blinkens og mögulegar fyrirætlanir Kínverja tengdust langvarandi spennu milli ríkjanna tveggja.
Yfirvöld í Rússlandi hafa meðal annars leitað til Írans og Norður-Kóreu eftir vopnum, hergögnum og skotfærum. Bæði Úkraínumenn og Rússar eru sagðir eiga í skorti á skotfærum fyrir stórskotalið en þúsundum sprengikúla er skotið á degi hverjum í Úkraínu.
Rússneski auðjöfurinn Yevgeny Prigozhin, hefur á undanförnum dögum gagnrýnt forsvarsmenn rússneska hersins harðlega og sakað þá um að halda aftur af skotfærasendingum til málaliða sinna í Wagner Group.
Sjá einnig: Kokkur Pútíns sakar yfirmenn hersins um landráð
Rússneskir herbloggarar hafa í kjölfarið sagt að málaliðar Wagner séu í sömu stöðu og aðrir rússneskir hermenn. Þeir fái sama magn af skotfærum. Rússneskir hermenn eru þar að auki sagðir hafa birt myndir af algjörlega ónothæfum skotum sem þeir hafi fengið að undanförnu.
1/ Russia's ammunition shortage in eastern Ukraine is reportedly so severe that its troops there have reportedly been issued with completely unusable munitions, including shells which are so rusty they have simply disintegrated. pic.twitter.com/zT0kwWOTyM
— ChrisO_wiki (@ChrisO_wiki) February 22, 2023
Ráðamenn á Vesturlöndum segja ríkisstjórn Kína ekki hafa tekið ákvörðun um að hefja vopnasendingar til Rússlands en að afstaða þeirra virðist hafa breyst.
Yellen varaði Kínverja við í Indlandi
Erindrekar G-20 ríkjanna svokölluðu munu funda í Indlandi á komandi dögum en í frétt New York Times er því haldið fram að fundurinn muni að miklu leyti snúast um það hvernig bæta megi efnahagsástand heimsins eftir þrjú ár af alþjóðlegum krísum.
Janet L. Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í Indlandi í morgun að Bandaríkin myndu halda áfram að leita leiða til að auka stuðning við Úkraínu á heimsvísu. Hún varaði einnig yfirvöld í Kína við því að aðstoða Rússa og sagði, eins og Blinken, að það myndi hafa alvarlegar afleiðingar.
„Við höfum gert ljóst að það veita Rússum beinan stuðning eða hjálp við að komast hjá refsiaðgerðum yrði litið alvarlegum augum,“ sagði Yellen.