Umfjöllun: Hörður - Stjarnan 25-35 | Starri Friðriksson saltaði Harðverja

Andri Már Eggertsson skrifar
Starri Friðriksson fór á kostum gegn Herði í kvöld
Starri Friðriksson fór á kostum gegn Herði í kvöld Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan valtaði yfir Hörð á Ísafirði og vann tíu marka sigur 25-35. Eftir litlausan fyrri hálfleik setti Stjarnan í fluggírinn og valtaði yfir Harðverja í seinni hálfleik.

Stjarnan setti tóninn strax í upphafi leiks. Gestirnir frá Garðabæ komust snemma þremur mörk yfir 1-4. Harðverjar voru lengi í gang en Carlos Martin Santos, þjálfari Harðar, tók leikhlé í stöðunni 3-7 og kveikti í sínum mönnum.

Það var allt annað að sjá spilamennsku Harðar eftir leikhlé. Heimamenn nýttu færin betur og spiluðu þéttari vörn. Hörður jafnaði leikinn þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Axel Sveinsson var atkvæðamestur hjá Herði í fyrri hálfleik með fjögur mörk.

Baráttuglaðir Harðverjar gáfu ekkert eftir og liðin skiptust á mörkum. Starri Friðriksson og Gunnar Steinn Jónsson skoruðu níu af fjórtán mörkum Stjörnunnar í fyrri hálfleik. Gestirnir úr Garðabæ voru einu marki yfir í hálfleik 13-14.

Vendipunkturinn í leiknum kom snemma í síðari hálfleik þegar Leó Renaud-David, leikmaður Harðar, fékk tveggja mínútna brottvísun þegar Hörður var í sókn og gat jafnað leikinn. Hjálmtýr Alfreðsson skoraði í framhaldinu tvö auðveld hraðaupphlaups mörk og setti Stjörnuna í bílstjórasætið.

Starri Friðriksson hélt áfram að leika Ísfirðinga grátt og skoraði mörk í öllum regnbogans litum. Hörður gerði aldrei tilkall til að setja Stjörnuna undir pressu. Stjarnan steig á bensíngjöfina eftir því sem leið á síðari hálfleik og vann að lokum tíu marka sigur 25-35. 

Af hverju vann Stjarnan?

Patrekur Jóhannesson lét sína menn sennilega heyra það í hálfleik þar sem Stjarnan var einu marki yfir og ekki að spila vel. Það var allt annað að sjá til liðsins í síðari hálfleik og gestirnir unnu síðustu tuttugu og fimm mínúturnar 10-21. 

Hverjir stóðu upp úr?

Starri Friðriksson lék á alls oddi og skoraði 14 mörk. Eins og Starri er þekktur fyrir þá var hann duglegur að skemmta áhorfendum með skotum rétt yfir hausinn á markvarðarteymi Harðar. 

Axel Sveinsson var flottur í fyrri hálfleik og gerði fjögur mörk en fann sig ekki í seinni hálfleik og skoraði ekki mark. 

Hvað gekk illa? 

Eftir vel spilandi fyrri hálfleik gat Hörður ekkert í seinni hálfleik. Heimamenn töpuðu síðustu tuttugu og fimm mínútum 10-21 og einfaldlega hættu þegar korter var eftir. 

Hvað gerist næst?

Stjarnan fær KA í heimsókn næsta fimmtudag klukkan 19:30.

Föstudaginn 3. mars mætast Afturelding og Hörður klukkan 19:30. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira