Phil Foden skoarði eina mark fyrri hálfleiksins þegar hann kom gestunum í City yfir strax á sjöundu mínútu og staðan var því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Foden var svo aftur á ferðinni rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar hann tvöfaldaði forystu gestanna, áður en Kevin De Bruyne gulltryggði 3-0 sigur liðsins, og sæti í átta liða úrslitum um leið.
Þá mátti Leicester þola 2-1 tap er liðið tók á móti B-deildarliði Blackburn Rovers. Tyrhys Dolan og Sammie Szmodics sáu um markaskorun Blacburn sitt hvoru megin við hálfleikshléið áður en Kelechi Iheanacho minnkaði muninn fyrir Leicester á 67. mínútu.
Blackburn er því á leið í átta liða úrslit FA-bikarsins á kostnað Leicester, en ásamt Blackburn og Manchester City tryggðu Fulham og Brighton sér einnig sæti í átta liða úrslitum. Brighton vann 1-0 sigur gegn B-deildarliði Stoke og Fulham hafði betur í úrvalsdeildarslag gegn Leeds, 2-0.
Seinni fjórir leikir 16-liða úrslitanna fara svo fram annað kvöld og að þeim loknum verður dregið í átta liða úrslitin.