Þrátt fyrir að gestirnir í Tottenham hafi þótt líklegri til að verða fyrri til að brjóta ísinn gegn Úlfunum tókst liðinu ekki að skapa sér nein opin marktækifæri. Það kom svo í bakið á þeim því Adama Traore tryggði Úlfunum sigur með föstu skoti á 82. mínútu leiksins.
Niðurstaðan því 1-0 sigur Úlfanna sem nú eru með 27 stig í 13. sæti deildarinnar, fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið. Tottenham situr hins vegar í fjórða sæti með 45 stig.
Þá fóru liðsmenn Brighton illa með West Ham á sama tíma þar sem Alexis MacAllister kom heimamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Það voru svo þeir Joel Veltman, Kaoru Mitoma og Danny Welbeck sem sáu um markaskorunina í síðari hálfleik og niðurstaðan varð 4-0 sigur Brighton.
Brighton situr nú í áttunda sæti deildarinnar með 38 stig, en West Ham situr í því 16. með 23 stig, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.
Þá skoraði Joachim Andersen eina mark leiksins í leik Aston Villa og Crystal Palace, en því miður fyrir hann setti hann boltann í rangt net. Aston Villa vann því góðan 1-0 sigur og situr nú í 11. sæti deildarinnar með 34 stig, sjö stigum meira en Crystal Palace sem situr sæti neðar.