ASÍ ákvað að stefna SA fyrir Félagsdómi til þess að fá boðað verkbann gegn félagsfólki Eflingar ógilt. Í tilkynningu sem sambandið gaf frá sér þann 25. febrúar kom fram að það telji stjórn SA óheimilt að taka ákvörðun um verkbann auk þess sem það telur að ójafnt atkvæðavægi félagsmanna SA í kosningunni um verkbannið hafi ekki átt sér lagastoð.
Aldrei varð þó af verkbanni þar sem banninu og verkföllum var frestað þar til niðurstaða atkvæðagreiðslu um nýja miðlunartillögu ríkissáttasemjara liggur fyrir.

Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við fréttastofu að dómurinn kveði annars vegar á um að verkbannið sem Samtök atvinnulífsins boðuðu hafi verið boðað með lögmætum hætti auk þess sem dómurinn skeri úr um að samtökunum sé yfirleitt heimilt að boða til verkbanna.
„Framtíðarheimildin er ótvíræð,“ segir Ragnar.