Íslendingar töpuðu illa fyrir Tékkum, 22-17, í Brno á miðvikudaginn en svöruðu fyrir sig með níu marka sigri í Laugardalshöllinni í gær.
„Mér fannst samvinna varnar og markvarðar frábær, vörnin mjög þétt og síðan vorum við skynsamir. Þetta var hið fullkomna svar,“ sagði Gísli við Vísi eftir leikinn.
Tékkarnir beittu svipuðum brögðum og á miðvikudaginn, spiluðu langar sóknir og leituðust við að hægja á leiknum.
„Það var ekki ein sókn hjá þeim undir einni mínútu sem gerir þetta gríðarlega erfitt. Við fengum færri uppstilltar sóknir og við þurftum að nýta þær miklu betur en við gerðum en í síðasta leik og mér fannst við gera það vel. Við héldum einbeitingu allan tímann og þetta var frábært,“ sagði Gísli.
Sóknarleikur íslenska liðsins var ekki burðugur í Brno þar sem það skoraði aðeins sautján mörk. Í gær skoraði Ísland ellefu mörkum meira og Gísli segir að aukið áræði hafi skipt sköpum í sókninni.
„Mér fannst flæðið betra. Í hverri einustu árás fórum við á þá til að fara í gegn. Þetta var allt á sjötíu prósentum þarna úti. Núna vildum við svara svo svakalega fyrir það sem gerðist úti í Tékklandi. Viljinn og hjartað var til staðar í dag,“ sagði Gísli að lokum.