Könnun Maskínu var gerð dagana 6. til 20. mars og tóku 1.599 manns afstöðu. Samkvæmt henni nýtur Samfylkingin stuðnings 24 prósenta kjósenda, Sjálfstæðisflokkurinn 20 prósenta og Framsóknarflokkurinn 13, 2 prósenta. Framsóknarmenn hafa aukið fylgi sitt um rétt rúmlega prósentustig frá síðustu könnun Maskínu í febrúar. Fylgi Vinstri grænna heldur hins vegar áfram að minnka og mælist nú aðeins 6 prósentustig en það var 6,7 prósent í síðasta mánuði.

Viðreisn og Sósíalistaflokkurinn auka einnig fylgi sitt um eitt prósentustig milli kannanna. Viðreisn mælist nú með 9 prósent og Sósíalistaflokkurinn með 6, sama fylgi og Vinstri græn og Miðflokkurinn. Fylgi Pírata minnkar hins vegar töluvert milli kannana eða um 2,5 prósentustig og mælist nú 10 prósent.
Sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna var 54 prósent í kosningunum í september 2021. Það fór í fyrsta skipti undir 40 prósent í síðasta mánuði og mældist þá 39,1 prósent og mælist nú á svipuðum slóðum eða 39,3 prósent.
Samfylkingin hefur bætt við sig lang mestu fylgi allra flokka frá kosningum. Flokkurinn fékk 9,9 prósent í kosningunum en mælist nú eins og áður sagði með 24 prósent atkvæða.
Á sama tíma hafa Vinstri græn tapað fylgi ríflega heilmings kjósenda sinna. Flokkurinn fékk 12,6 prósent atkvæða í kosningunum en mælist nú með 6 prósent.