Fótbolti

Greiðslur Barcelona til vara­for­manns dómara­nefndar hafi ekki haft á­hrif á úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Joan Laporta, forseti Barcelona, og Xavi, þjálfari liðsins. Sá fyrrnefndi hefur þvertekið fyrir þær sögusagnir um að greiðslurnar hafi verið til að hafa áhrif á dómara.
Joan Laporta, forseti Barcelona, og Xavi, þjálfari liðsins. Sá fyrrnefndi hefur þvertekið fyrir þær sögusagnir um að greiðslurnar hafi verið til að hafa áhrif á dómara. Pedro Salado/Quality Sport Images/Getty Images

Spænski ríkissjóðurinn hefur ekki fundið neinar sönnunargögn sem benda til þess að greiðslur spænska stórveldisins Barcelona til fyrirtækis í eigu José María Enríquez Negreira á árunum 2016 til 2018 hafi haft áhrif á úrslit í leikjum félagsins. Negreira var á þessum tíma varaformaður spænsku dómaranefndarinnar, CTA.

Fjallað var um „Caso Negreira“ eða „Negreira-málið“ hér á Vísi fyrir rúmum mánuði síðan þegar kom í ljós að Barcelona hafði greitt fyrirtækinu í kringum 1,4 milljónir evra á tímabilinu, sem samsvarar um 217 milljónum króna á gengi dagsins í dag.

Josep Maria Bartomeu, fyrrverandi forseti Barcelona, sagði hins vegar frá því að greiðslurnar næðu mun lengra aftur í tímann. Heildarupphæðin hafi því verið rúmlega sjö milljónir evra á 17 ára tímabili.

Spænski miðillinn EFE greinir nú hins vegar frá því að spænski ríkissjóðurinn hafi ekki fundið neinar sannanir fyrir því að greiðslurnar hafi haft nokkur áhrif á úrslit leikja félagsins og að félagið hafi ekki hagnast á ákvörðunum dómara á þessu tímabili.

Hvort „Negreira-málinu“ sé nú lokið verður hins vegar að koma í ljós. Fyrr í þessum mánuði bættust erkifjendur Barcelona í hóp þeirra félaga sem ætlar gegn Barcelona í dómsalnum, en Joan Laporta, forseti Barcelona, hefur verið harður í sínum málflutningi og segir ekkert til í þeim fréttum að félagið hafi keypt dómara eða reynt að hafa áhrif á þá.


Tengdar fréttir

„Við keyptum aldrei dómara“

Joan Laporta, forseti Barcelona, segir ekkert til í þeim fréttum að félagið hafi keypt dómara eða reynt að hafa áhrif á þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×