Handbolti

Benedikt varð eftir heima

Valur Páll Eiríksson skrifar
Benedikt er ekki með í Þýskalandi.
Benedikt er ekki með í Þýskalandi. vísir/Diego

Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Vals, er ekki með hópnum sem er staddur í Göppingen og mætir heimamönnum í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í handbolta í dag. Hann glímir við meiðsli.

Benedikt varð eftir heima á Íslandi vegna meiðslanna sem hann glímir við á nára og þá kann að vera að um kviðslit sé einnig að ræða. Arnór Snær Óskarsson, liðsfélagi og bróðir Benedikts segir það skell að Benedikt sé fjarverandi en menn hafi fulla trú á verkefni kvöldsins.

„Ég hef fulla trú og held að strákarnir geri það líka og séu mjög vel stemmdir. Auðvitað söknum við Benna sem er ekki með, en við þurfum að vinna út frá því,“ sagði Arnór við Vísi í gær.

Valur tapaði fyrri leiknum með sjö marka mun að Hlíðarenda og þarf því að vinna þann mun upp í kvöld ætli liðið sér að framlengja Evrópudrauminn.

Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarþjálfari Vals, og faðir Benedikts staðfesti við Vísi í dag að hann verði líklega frá í um sex vikur hið minnsta. Hann á eftir að gangast undir frekari skoðun til að meta meiðslin. Hann sé tognaður á nára en óljóst sé með kviðslitið.

Benedikt hefur verið á meðal betri manna hjá Val í vetur og verður mikill missir af honum næstu vikur. Hann gæti vart hafa valið verri tímapunkt til að meiðast þar sem hann missir ekki aðeins af leik kvöldsins í Göppingen heldur er úrslitakeppni Olís-deildarinnar á næsta leyti.

Leikurinn hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Vísir mun fylgja liðinu eftir fram að leik og gera allt saman vel upp að honum loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×