Kirby sagði vopnaviðskipti milli Rússlands og Norður-Kóreu myndu brjóta gegn ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Bandaríkjamenn hafa áður sakað Norður-Kóreu um að sjá Rússum og liðsmönnum Wagner málaliðahópsins fyrir vopnum. Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa hafnað ásökununum.
Kirby sagði í gær að Bandaríkjamenn hefðu komist yfir nýjar upplýsingar um fyrirhugað samkomulag.
„Okkur skilst líka að Rússar ætli að gera út sendinefnd til Norður-Kóreu og að Rússland hyggist bjóða Norður-Kóreu mat fyrir vopn,“ sagði Kirby.
Hann sagði Bandaríkjamenn fylgjast náið með þróun mála.
Sérfræðingar vöruðu við því í febrúar síðastliðnum að matvælaskortur væri yfirvofandi í Norður-Kóreu vegna samdráttar í framleiðslu, meðal annars vegna veðurs, landamæratakmarkana og viðskiptaþvingana.
Ábendingar eru uppi um að matvælaframleiðsla í landinu hafi dregist saman um 180 þúsund tonn milli áranna 2021 og 2022.
Bandaríkjamenn settu Ashot Mkrtychev, 56 ára Slóvaka, á svartan lista í gær en hann er grunaður um að hafa haft milligöngu um vopnasendingar frá Norður-Kóreu til Rússlands í fyrra og í byrjun þessa árs. Norðurkóreumenn eru sagðir hafa fengið reiðufé, farþegaþotur og hrávörur í staðinn.