Fótbolti

Miðar á lokaleik Arsenal seljast á rúmar níu milljónir

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Arsenal eru farnir að láta sig dreyma um fyrsta Englandsmeistaratitil félagsins í 19 ár.
Stuðningsmenn Arsenal eru farnir að láta sig dreyma um fyrsta Englandsmeistaratitil félagsins í 19 ár. Julian Finney/Getty Images

Nú þegar styttist í að titilbaráttan í ensku úrvalsdeildinni fari að ná hámarki fara stuðningsmenn hinna ýmissu liða að reyna að verða sér út um miða á mikilvæga leiki. Stuðningsmenn toppliðs Arsenal hafa borgað rúmar níu milljónir króna fyrir miða á seinasta leik liðsins á tímabilinu.

Arsenal trónir á toppi deildarinnar með 72 stig þegar liðið á níu leiki eftir. Lundúnaliðið er með átta stiga forskot á ríkjandi Englandsmeistara Manchester City sem sitja í öðru sæti, en eiga þó einn leik til góða.

Stuðningsmenn Arsenal eru því farnir að láta sig dreyma um fyrsta Englandsmeistaratitil félagsins frá því að liðið fór taplaust í gegnum tímabilið 2003-2004. Nítján ára bið gæti því verið á enda í vor.

Eðlilega eru umræddir stuðningsmenn því orðnir spenntir fyrir seinustu níu leikjum tímabilsins. Liðið mætir Wolves í lokaumferð deildarinnar þann 28. maí og ef marka má grein frá breska götublaðinu The Sun hafa miðar á leikinn selst á allt að 53 þúsund pund sem samsvarar rétt rúmum níu milljónum íslenskra króna.

Ljóst er að ef ríkjandi Englandsmeistarar Manchester City vinna alla sína tíu leiki sem liðið á eftir getur Arsenal í fyrsta lagi tryggt sér titilinn í lokaumferðinni.

Enn á þó mikið vatn eftir að renna til sjávar og Arsenal og Manchester City eiga eftir að mætast einu sinni í ensku úrvalsdeildinni. Sá leikur fer fram þann 26. apríl og Skytturnar frá Norður-Lundúnum geta farið langleiðina með að tryggja sér titilinn með sigri þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×