Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus í íslenskri málfræði og málfarslegur aðgerðasinni rýndi í fjármálaáætlun 2024 til 2028 og þótti ekki mikil til hennar koma hvað íslenskt tungumál varðar.
„Það er ekki að sjá neinar ákveðnar aðgerðir. Það er talað um að það sé eitthvað í undirbúningi og eitthvað svoleiðis en það eru engar ákveðnar aðgerðir, hvað þá fjármögnun.“
Eiríkur skrifaði grein á Vísi af þessu tilefni þar sem hann sagði að langstærsta áskorun íslenskunnar, um þessar mundir og á næstu árum, sé mikil fjölgun íbúa með annað móðurmál en íslensku. Ný fjármálaáætlun endurspegli ekki alvarleika málsins.
„Hættan er sú að það myndist hérna - og það er þegar byrjað að myndast hérna - einangruð samfélög fólks sem kann ekki íslensku og þar sem íslenskan er ekki notuð. Þetta er stóralvarlegt mál frá svo mörgum sjónarhornum. Frá sjónarmiði íslenskunnar er hætta á að hún verði ekki aðalsamskiptamálið í landinu með þessu áframhaldi. Við sem erum Íslenskumælandi, við munum líka nota meiri og meiri ensku þá í samskiptum við þau sem ekki eru íslenskumælandi. Svo er þetta náttúrulega stóralvarlegt fyrir lýðræðið ef það verða til stórir hópar fólks sem ekki geta tekið þátt í lýðræðislegri umræðu í samfélaginu.“
Eiríkur kallar eftir stórátaki í kennslu íslensku sem annað mál.
„Það eru alltaf að koma fréttir af máltækniátaki stjórnvalda – af góðum árangri þess - við höfum séð að ef við virkilega tökum til hendinni og gerum átak í málum sem varða íslenskuna þá skilar það árangri.“
Í upphafi skyldi endinn skoða.
„Það er svo óskaplega erfitt að snúa þróuninni við. Þegar við erum búin að missa ákveðin svið frá íslenskunni þá er rosalega erfitt að ná þeim til baka og þegar er kominn einhver ákveðinn fjöldi fólks sem býr hér og kann ekki íslensku þá erum við eiginlega komin í óviðráðanlega stöðu.“