Handbolti

Magnaður Óðinn skaut Refina frá Berlín í kaf

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óðinn Þór var magnaður í kvöld.
Óðinn Þór var magnaður í kvöld. Kadetten

Óðinn Þór Ríkharðsson var langmarkahæsti maður vallarins er Kadetten Schaffhausen vann mikilvægan fjögurra marka sigur gegn Refunum í Füchse Berlin í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handbolta í dag. Lokatölur 37-33, en Óðinn skoraði 15 mörk fyrir Kadetten.

Gestirnir í Füchse Berlin leiddu lengst af í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forskoti í stöðunni 7-10. Heimamenn í Kadetten, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, hleyptu gestunum þó aldrei of langt fram úr sér og náðu loks forystunni undir lok hálfleiksins. Óðinn og félagar leiddu með einu marki þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 19-18.

Heimamenn náðu fljótlega upp þriggja marka forystu í upphafi síðari hálfleiks og héldu henni lengst af. Gestirnir náðu þó að jafna metin í stöðunni 28-28, en þá tók við góður kafli heimamanna og Kadetten náði aftur upp þriggja, og svo fjögurra marka forskoti.

Gestirnir náðu aldrei að brúa það bil og Kadetten Schaffhausen vann að lokum virkilega sterkan fjögurra marka sigur, 37-33.

Óðinn Þór var sem áður segir langmarkahæsti leikmaður vallarins með 15 mörk úr 16 skotum og svissneska liðið fer því með fjögurra marka forskot inn í síðari leikinn sem fram fer í Þýskalandi að viku liðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×