Fótbolti

Liverpool dregur sig úr kapphlaupinu um Bellingham

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jude Bellingham er að öllum líkindum ekki á leið til Liverpool í sumar.
Jude Bellingham er að öllum líkindum ekki á leið til Liverpool í sumar. Joachim Bywaletz/DeFodi Images via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool mun ekki reyna að kaupa ungstirnið Jude Bellingham frá Borussia Dortmund í sumar þar sem hár verðmiði myndi gera félaginu erfitt fyrir að endurbyggja liðið sem Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, er með í höndunum.

Það er enski miðillinn The Guardian sem greinir frá þessu, en Bellingham hefur verið ofarlega á óskalista Liverpool í rúmt ár. 

Félagið hefur hins vegar ákveðið að draga sig úr kapphlaupinu um þennan eftirsótta leikmann þar sem verðmiðinn er hár og liðið þarf að öllum líkindum að styrkja sig á fleiri stöðum á vellinum. Liverpool mun því þurfa að eiga fjármagn til að geta styrkt umræddar stöður.

Dortmund er sagt vilja fá í kringum 135 milljónir punda fyrir leikmanninn, en það samsvarar rúmum 23 milljörðum íslenskra króna. Lið á borð við Real Madrid, Manchester City, Paris Saint-Germain og Chelsea eru hins vegar enn sögð áhugasöm um að klófesta þennan 19 ára Englending.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×