Rúv greindi frá þessu fyrr í kvöld.
Umfangsmiklar aðgerðir brasilísku lögreglunnar í gærmorgun voru liður í því að uppræta glæpasamtök sem hafa sérhæft sig í peningaþvætti og fíkniefnaviðskiptum. Meðal þeirra 26 sem voru handteknir var Sverrir Þór Gunnarsson, betur þekktur sem Sveddi tönn.
Nú hefur komið í ljós að Sverrir var ekki eini Íslendingurinn sem átti að handtaka heldur var gefin út handtökuskipun á hendur öðrum Íslendingi sem var búsettur í Rio de Janeiro. Hins vegar hafi sá maður látist í febrúar og hefur ekki verið nafngreindur.
Íslenska lögreglan var í samvinnu við brasilísk yfirvöld í talsverðan tíma sökum áhyggja af streymi fíkniefna frá Brasilíu til Íslands undanfarin ár. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn á alþjóðasviði ríkislögreglustjóra, sagði í gær ekki vera hægt að útiloka að fleiri Íslendingar yrðu handteknir í tengslum við rannsóknina.