Þá tökum við stöðuna á riðuveiki í Húnaþingi vestra en ekki liggur enn fyrir hvort hægt verði að skera um sjö hundruð fjár á sveitabæ í Miðfirði, þar sem riða greindist fyrir helgi. Yfirdýralæknir óttast að riða greinist á fleiri bæjum.
Mjög mikil óánægja er meðal starfsmanna Háskóla Íslands vegna fyrirhugaðra breytinga á vinnurými að sögn prófessors við skólann. Rannsóknir sýni að afköst og starfsánægja minnki við breytingarnar. Leita þurfi annarra lausna.
Við fjöllum einnig um leit lögreglu að ungri stúlku í Danmörku sem fékk farsælan endi í dag, ræðum við íþróttaþjálfara í Breiðholti sem segir stjórnvöld of upptekin af átaksverkefnum og sýnum frá aldarafmælishátíð Borgarbókasafnsins.
Þá verðum við í beinni útsendingu frá óhefðbundinni listasýningu í Gufunesi, þar sem systir listakonunnar heiðrar minningu hennar, og Magnús Hlynur kíkir á hrafnapar á Selfossi sem enn og aftur hefur hreiðrað um sig í þakskeggi verslunar BYKO.