Fulltrúar nefndarinnar sátu opinn upplýsingafund vegna riðusmits í Miðfjarðarhólfi sem haldinn var á Hótel Laugarbakka í Miðfirði þann 18. apríl. Var þar meðal annars tekist á um girðingar.
Í fundargerð segir að Matvælastofnun (MAST) telji að forgangsgirðingum sé vel sinnt í landinu. „Fram kom í máli heimamanna í Miðfirði að þrátt fyrir að um sé að ræða forgangsgirðingu, þá sé viðhaldi ábótavant og girðingar ekki fjárheldar.“
Lýsir nefndin yfir áhyggjum af viðhaldi girðinga á milli varnarhólfa. Einkum á milli Miðfjarðarhólfs annars vegar og Vesturlandshólfs hins vegar. Einnig að sauðfjárveikivarnagirðing sé ónýt á milli Vesturlandshólfs og Snæfellsneshólfs. Leggja þurfi umtalsvert fjármagn í þá girðingu.
„Nefndin skorar á Matvælaráðuneyti og MAST að axla ábyrgð á hlutverki sínu í þessum málum og krefst frekara fjármagns í málaflokkinn sem fyrst í ljósi aðstæðna í Miðfjarðarhólfi,“ segir í bókun nefndarinnar.