Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Málefni fólks með fíknivanda hafa verið til mikillar umfjöllunar undanfarna daga eftir að greint var frá því að minnst þrjátíu og fimm undir fimmtugu, sem hafa verið í meðferð á Vogi vegna ópíóðafíknar, hafi látist á þessu ári.
Þá eru uppi vísbendingar um að vandinn fari vaxandi meðal ungs fólks. Segir í tilkynningu frá stjórnarráðinu að mikilvægar aðgerðir til að bregðast við þessu feli í sér aukið aðgengi að fjölbreyttri, gagnreyndri meðferð við vímuefnavanda og skaðaminnkandi úrræðum. Þar með talið gagnreyndri viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn. Þá þurfi að auka fræðslu, forvarnir og heilsueflingu.
Þá er ein hættulegasta aukaverkun ópíóða öndunarbæling og með notkun stórra skammta eykst hætta á ofskömmtun og öndunartoppi. Því eru þeir sem reykja eða sprauta ópíóðum í æð í hvað mestri hættu hvað það varðar.
Aðgerðir sem ráðist verður í eru fjórþættar:
-
Þróuð verður flýtimóttaka/viðbragðsþjónusta sem samstarfsverkefni SÁÁ, Landspítala og heilsugæslu þar sem einstaklingum í bráðum vanda er tryggt aðgengi að gagnreyndri heilbrigðisþjónustu á borð við fráhvarfsmeðferð, vímuefnameðferð eða viðhaldsmeðferð sem mætir þeirra þörfum. Áætlaður kostnaður er 50 m.kr.
-
Tryggja verði að neyðarlyfið Naloxon í nefúðaformi sem notað gegn ópíóðaofskömmtun sé aðgengilegt fólki á landsvísu án endurgjalds, bæði í gegnum skaðaminnkunarúrræði og á heilsugæslum landsins. Áætlaður kostnaður 10 m.kr.
-
Úrræði á vegum frjálsra félagasamtaka efld, s.s. Foreldrahúss, sem sýnt hafa fram á árangur á sviði viðbragðsforvarna og snemmtækra inngripa fyrir ungmenni sem sýna forstigseinkenni vímuefnavanda og aðstandenda þeirra, með það að markmiði að koma í veg fyrir þróun frekari vanda eða fíknisjúkdóm. Áætlaður kostnaður 30 m.kr.
-
Tryggt verði greitt aðgengi notenda að gagnreyndri lyfjameðferð við ópíóðafíkn þar sem m.a. er notuð lyf eins og buprenorphin, metadon og í sumum tilfellum önnur ópíóíðalyf. Áætlaður kostnaður 80 m.kr.
Uppfært klukkan 16:24
Heilbrigðiráðuneytið segir í nýrri tilkynningu að „vegna tilkynningar ráðuneytisins um aðgerðir til að sporna við skaða af völdum ópíóíða, að tillögur ráðherra þar að lútandi sem lagðar voru fram á fundi ríkisstjórnar í dag voru þar einungis til kynningar en ekki samþykktar. Tillögurnar verða ræddar í næstu viku í ráðherranefnd um samræmingu mála ásamt fleiri aðgerðum á þessu sviði. Ríkisstjórnin mun síðan fjalla um niðurstöður ráðherranefndarinnar.“