Það verður seint sagt að leikir Breiðabliks séu leiðinlegir en boðið var upp á enn eina markasúpuna í Árbænum þar sem Blikar eru að leggja nýtt gervigras á Kópavogsvöll. Blikar virtust með unninn leik eftir aðeins 28 mínútur en þá var staðan orðin 3-0 þökk sé tveimur mörkum frá Stefáni Inga Sigurðarsyni og einu frá Patrik Johannesen. Guðmundur Magnússon minnkaði hins vegar muninn og staðan 3-1 í hálfleik.
Már Ægisson minnkaði muninn í aðeins eitt mark á 52. mínútu en Stefán Ingi fullkomnaði þrennu sína svo gott sem í næstu sókn. Staðan var þó ekki lengi 4-2 þar sem Fred minnkaði muninn í 4-3 þegar rétt rúm klukkustund var liðin.
Þegar stundarfjórðungur lifði leiks jafnaði Magnús Þórðarson svo metin í 4-4 og virtist sem það yrði lokatölur. Á fimmtu mínútu uppbótartíma fengu Blikar hornspyrnu, Höskuldur Gunnlaugsson gaf fyrir og varamaðurinn Klæmint Olsen stangaði knöttinn í netið. Lokatölur í Árbænum 5-4 í hreint út sagt mögnuðum leik.