Frakkinn Karim Benzema fór á kostum fyrir Madrídinga og hann var búinn að koma heimamönnum í forystu strax á fimmtu mínútu leiksins. Hann var svo búinn að tvöfalda forystuna tólf mínútum síðar og á 42. mínútu fullkomnaði hann þrennuna.
Gestirnir minnkuðu þó muninn í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan var því 3-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Rodrygo endurheimti þó þriggja marka forskot heimamanna snemma í síðari hálfleik áður en Lucas Robertone minnkaði muninn á nýjan leik á 61. mínútu og þar við sat.
Niðurstaðan því 4-2 sigur Real Madrid sem nú er með 68 stig eftir 32 leiki, átta stigum minna en topplið Barcelona sem hefur leikið einum leik minna.