Andreas Christensen kom heimamönnum í Barcelona í forystu strax á fjórtándu mínútu, en rétt tæpum tuttugu mínútum misstu gestirnir algjörlega tökin á leiknum.
Edgar Gonzalez fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 33. mínútu. Heimamenn gengu á lagið og Robert Lewandowski og Raphinha bættu sínu markinu hvor við áður en hálfleikurinn var úti.
Staðan var því 3-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Eftir nokkuð rólegan síðari hálfleik varð Guido Rodriguez fyrir því óláni að setja boltann í eigið net á 82. mínútu og niðurstaðan varð því 4-0 sigur Barcelona.
Börsungar endurheimtu því 11 stiga forskot á toppi spnsku úrvalsdeildarinnar, en liðið er nú með 79 stig eftir 32 leiki og þarf aðeins átta stig í viðbót til að tryggja sér spænska meistaratitilinn.