Rússar hafa gert árásir á höfuðborgina Kænugarð en einnig í Zaporizhzia og Odesa. Engar fregnir hafa borist af mannfalli. Volodómír Selenskí Úkraínuforseti er enn á ferðalagi en eftir heimsókn sína til Helsinki í Finnlandi í gær þar sem hann hitti forsætisráðherra Norðurlandanna hélt hann til Haag í Hollandi þar sem hann mun hitta ráðamenn þar í landi og heimsækja alþjóða glæpadómstólinn sem þar er staðsettur og rannsakar nú meinta stríðsglæpi Rússa í Úkraínu.
Rússar saka Úkraínumenn um að hafa reynt að ráða Vladímír Pútín af dögum með drónaárás gærdagsins en á myndbandi sést glöggt hvernig dróni skellur á Kreml, aðsetri forsetans og veldur sprengingu. Selenskí hefur þvertekið fyrir að Úkraínumenn hafi komið þarna nærri og segir að Úkraínumenn ráðist ekki á Moskvu, heldur verji þeir eigið landssvæði.
Pútín forseti var ekki í Kreml þegar árásin var gerð og því aldrei í hættu og hafa sumir sérfræðingar haldið því fram að líklegra sé að Rússar hafi sjálfir sviðsett árásina á Kreml fremur en að Úkraínumenn hafi staðið þar að baki.