Yevgeny Prigozhin fór ófögrum orðum um rússneska ráðamenn í myndskeiði sem birtist á fimmtudag en eldræðan var tekið upp innan um lík fjölda Wagner-liða. Degi síðar tilkynnti Prigozhin að málaliðahópurinn myndi yfirgefa Bakhmut fyrir 10. maí ef honum yrði ekki útveguð skotfæri. Fyrr í dag mátti greina annan tón hjá leiðtoga hópsins þegar hann sagði Kreml hafa fallist á að veita þær birgðir sem þyrfti til að halda áfram orustunni um borgina.
Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá þessu og segir nýjustu yfirlýsingu Prigozhin koma fáum á óvart. Stofnandi Wagner-málaliðahópsins hafi reglulega reynt að komast í sviðsljósið með orðsendingum sínum og ekki staðið við hótanir sínar í garð rússneskra stjórnvalda fram að þessu. Hann hefur einkum gagnrýnt að málaliðahópurinn, sem hefur víða barist við hlið rússneska hersins í Úkraínu, hafi ekki fengið nægilegan framlínustuðning frá Rússum.
Væru á seinustu byssukúlunum
„Shoigu! Gerasimov! Hvar eru skotfærin? Þeir komu hingað sem sjálfboðaliðar og dóu fyrir ykkur þannig að þið gætuð hlaupið í spik á mahóníviðarskrifstofunum ykkar,“ sagði Prigozhin í myndbandinu sem birt var á samfélagsmiðlum á fimmtudag og beindi orðum sínum að Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa og Valeríj Gerasimov yfirhershöfðingja.
Rússneskur stríðsbloggari hafði áður haft eftir Prigozhin að Wagner-liðar væru á síðustu byssukúlunum og vantaði þúsundir slíkra. Fengju þeir ekki nýja sendingu þyrftu þeir annað hvort að hörfa eða deyja.
Í gær var svo haft eftir Prigozhin að hann hygðist láta Akhmat-sveitir Tjéténa í Bakhmut, sem leiddar eru af dyggum bandamanni Vladimir Pútíns Rússlandsforseta, eftir framlínur Wagner-liða frá og með 10. maí.
Wagner-liðar hafa ásamt rússneskum hermönnum reynt að ná Bakhmut á sitt vald í fleiri mánuði og er orrustan um borgina ein sú langvinnasta og blóðugasta í innrás Rússa í Úkraínu. Málaliðar Wagner-hópsins hafa verið uppistaðan í árásarliði Rússa á svæðinu og telja ráðamenn á Vesturlöndum að þúsundir úr röðum þeirra og rússneska hersins hafi fallið í átökunum.