Það er breska ríkisútvarpið sem greinir frá ummælum forsætisráðherrans Ralph Gonsalves. Ráðherrann segir að hann myndi glaður þiggja afsökunarbeiðni frá breska ríkinu og konungsveldinu fyrir þrælahald fyrri alda.
Karl er þjóðhöfðingi átta ríkja í Karíbahafinu. Á síðastliðnu ári hafa leiðtogar Bahamas, Belís, Grenada, Jamaíka, Sankti Kitts og Nevis, auk Antígva og Barbúda allir lýst því yfir að þau hyggist taka til endurskoðunar stöðu Karls sem þjóðhöfðingja. Umræðan fór á flug eftir að Elísabet Bretlandsdrottning lést á síðasta ári.
Segir breskan þjóðhöfðingja móðgun
Forsætisráðherrann Gonsalves segir að vera bresks þjóðhöfðingja í landinu móðgi þjóðina og minni hennar. Hann segist styðja breytingar á stjórnarskránni svo að landið verði lýðveldi með kjörinn forseta.
Eyríkið hélt þjóðaratkvæðagreiðslu um málið árið 2009. Þar var almenningur spurður hvort hann væri til í að landið yrði lýðveldi með kjörinn forseta.
45 prósent kjósenda studdi myndun lýðveldis en tveir þriðju hluta kjósenda þarf til að breytingarnar gangi í gegn. Gonsales segist ætla að beita sér fyrir því að kosið verði aftur um málið.
Þjóðin ósammála
Þrátt fyrir sterkar skoðanir forsætisráðherrans hefur nýleg skoðanakönnun sýnt að 63 prósent þjóðarinnar myndi hafna stofnun lýðveldis á kostnað bresku krúnunnar. Einungis 34 prósent myndu styðja hugmyndina.
Í tilkynningu frá bresku konungsfjölskyldunni segir að það sé í höndum stjórnvalda hvers ríkis að ákveða breytingar á stjórnarskrá þeirra. Sjálfur segir Gonsalves að hann myndi taka fagnandi afsökunarbeiðni frá Karli vegna fortíðar Bretlands er varðar þrælahald.