Innherji

AGS segir Seðla­bankanum að fylgjast vel með fast­eigna­fé­lögum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Seðlabankinn vill sjá byggingarverktaka leggja meiri áherslu á atvinnuhúsnæði til að auka framboð. 
Seðlabankinn vill sjá byggingarverktaka leggja meiri áherslu á atvinnuhúsnæði til að auka framboð.  VÍSIR/VILHELM

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hefur að undanförnu lagt mat á stöðu efnahagsmála hér á landi, telur að fylgjast þurfi vel með atvinnuhúsnæðismarkaðinum og mögulega þarf að innleiða sérstök lánþegaskilyrði fyrir fasteignafélög sem eru mjög skuldsett.

Í áliti sem sendinefndin birti í dag kemur fram að þjóðhagsvarúðarstefna Seðlabankans sé heild á litið viðeigandi. Til að mynda hafi hert lánþegaskilyrði og hækkun sveiflujöfnunaraukans hafa aukið viðnámsþrótt gagnvart leiðréttingum á íbúðamarkaði og hertum fjármálskilyrðum. Nefndin brýnir þó fyrir Seðlabankanum að fylgjast vel með ef kerfisáhætta skyldi raungerast.

„Fylgjast ætti vel með þróun á atvinnuhúsnæðismarkaði, þar sem atvinnuhúsnæðisfélög eru viðkvæm fyrir vaxtahækkunum ásamt því að bankarnir hafa veitt talsvert af lánum til geirans,“ segir í áliti nefndarinnar.

„Stjórnvöld ættu einnig að íhuga að bæta í verkfærakassa sinn bæði tímabundnum lágmarks áhættuvogum og áhættuvogum fyrir áhættuskuldbindingar sem snúa að atvinnuhúsnæði, og lánþegaskilyrðum fyrir mikið skuldsett atvinnuhúsnæðisfélög.“

Í síðasta riti Fjármálastöðugleika, sem Seðlabankinn birti í mars, kom fram að lítið framboð og hátt verð einkenndu markaðinn með atvinnuhúsnæði.

Vísitala raunverðs atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 8,8 prósent á síðasta ári og var í sögulegu hágildi í lok ársins. Þá jókst velta í þinglýstum viðskiptum með atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu umtalsvert á síðasta ári og hefur ekki mælst jafn mikil á einu ári frá upphafi mælinga.

Samkvæmt greiningu fjármálastöðugleikanefndar helgaðist aukin eftirspurn meðal annars af 5,6 prósenta fjölgun á vinnumarkaði milli ára og hröðum vexti einkaneyslu en nefndir benti á að framboðið hefði verið tregbreytilegt. Stofn atvinnuhúsnæðis á landinu öllu stækkaði að meðaltali um 1,3 prósent á árunum 2011 til 2021 en til samanburður stækkaði stofninn að meðaltali um 3,3 prósent á árunum 2000 til 2010.

Atvinnuhúsnæðisfélög eru viðkvæm fyrir vaxtahækkunum ásamt því að bankarnir hafa veitt talsvert af lánum til geirans

„Áhersla byggingarverktaka virðist að mestu leyti hafa verið á íbúðarhúsnæði á undanförnum árum enda íbúðaverð mjög hátt og töluvert um endurskipulögð svæði í Reykjavík þar sem íbúðarhúsnæði kemur í stað iðnaðarhúsnæðis,“ sagði í Fjármálastöðugleika.

„Nú þegar íbúðaverð fer lækkandi gæti skapast hvati fyrir meiri uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og myndi slík uppbygging teljast jákvæð.“

Að mati sendinefndar AGS hefur Ísland sýnt mikinn viðnámsþrótt gegn röð ytri áfalla frá árinu 2019. Hagvaxtarhorfur eru fremur jákvæðar en áhætta, sem felur meðal annars í sér þrálátari verðbólgu, þrengri alþjóðleg fjármálaskilyrði og spennu í næstu kjaraviðræðum, er töluverð. Komandi kjaraviðræður veita hins vegar tækifæri til þess tengja betur raunlaun og framleiðnivöxt að mati nefndarinnar.

„Íslenskir kjarasamningar hafa verið árangursríkir hvað varðar að stuðla að þátttöku og draga úr fátækt, en síður þegar kemur að því að tryggja að launahækkanir setji ekki á þrýsting til aukningar verðbólgu eða dragi úr samkeppnishæfi landsins,“ segir í álitinu.

„Til að ná fram betri tengingu á milli raunlauna og framleiðnivaxtar ætti í kjaraviðræðum síðar á þessu ári að endurskoða framsetningu hagvaxtaraukans sem var innifalinn í samningunum 2019-22, meðal annars með því að tengja hagvaxtaraukann við aukna framleiðni vinnuafls miðað við upphaf samningsins. Einnig ætti að styrkja leiðir til að leysa úr langvarandi deilum meðal annars með því að tryggja að ríkissáttasemjari geti leitt samningsaðila saman og gert tillögur sem miða að því að leysa deilur.“

Stjórnarfrumvarp sem tryggir að ríkissáttasemjari geti látið greiða atkvæði um miðlunartillögu verður hins vegar ekki lagt fram á yfirstandandi þingi.

Þá kemur fram að nefndarseta fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans geti skapað hættu á pólitískum þrýstingi en eins og Innherji greindi frá hefur AGS gert athugasemdir við þá skipan mála í samskiptum sínum við stjórnvöld.

„Seðlabanki íslands ætti að hafa fullt vald til að taka ákvarðanir í fjármálaeftirliti. Sjálfstæði fjármálaeftirlitsnefndar til ákvörðunartöku væri aukið og dregið úr mögulegum hagsmunaárekstrum án setu starfsmanna fjármála- og efnahagsráðuneytis í nefndinni. Formfesting framsalsheimilda vegna ákvarðana í fjármálaeftirliti innan Seðlabankans myndi tryggja betri ábyrgðarskil og skilvirkni. Einnig þarf að veita starfsfólki Seðlabankans fullnægjandi skaðleysi í störfum sínum,“ segir í áliti sjóðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×