Skoðun

Sýndarveruleiki útilokar íslensk fyrirtæki

Steinar Sveinsson skrifar

Nú stendur undirbúningur vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins í Reykjavík sem hæst. Fréttir berast af því að víðtækar lokanir muni eiga sér stað í miðborg Reykjavíkur og að um 50 einkaflugvélar muni flytja erlend fyrirmenni og fylgdarlið þeirra til landsins. Til að flytja fyrirmennin um Reykjavík, helst þá væntanlega frá Reykjavíkurflugvelli á hótel í miðborginni og mögulega milli hótels og Hörpu, hafa samkvæmt fréttum verið fluttar inn um 70 viðeigandi glæsibifreiðar. Bifreiðarnar verða væntanlega flestar fluttar út aftur enda enginn markaður fyrir slíkan fjölda viðlíka bifreiða hér á landi. Tekið var fram í fréttum, svo allir skilji það nú að ávallt sé hugsað um umhverfið þegar íslensk stjórnvöld skipuleggja viðburði, að glæsibifreiðarnar eru drifnar með rafmagni.

Ég hef heimildir fyrir því að skipuleggjendur leiðtogafundarins báðu íslensk fyrirtæki um að bjóða í akstur fyrirmennana og annan akstur í kringum leiðtogafundinn. Auðvitað þurftu forsvarsmenn fyrirtækjana að eyða dýrmætum tíma sínum í að vega og meta verkefnið áður en tilboð voru gefin, eins og gengur.

Einn heimildarmaður minn, sem rekur akstursþjónustu og hefur yfir að ráða viðeigandi bílaflota og hefur góða og reynda starfsmenn á sínum snærum, tjáði mér að það hefði að lokum verið frágangssök að hann hefði ekki yfir rafdrifnum bílum að ráða. Það hefði verið skilyrði. Ekkert hefði verið minnst á önnur atriði, öryggisatriði líkt og skotheldar rúður eða slíkt.

Veruleikinn er því sá að íslensk fyrirtæki sem að staðaldri borga hér á landi sína skatta og veita fólki vinnu, eiga og reka bílaflota sem þau hafa borgað innflutningstolla og virðisauka af við innflutning, borga bifreiðagjöld af sem og tryggingar, einnig að sjálfsögðu öll eldsneytisgjöld samkvæmt notkun og eyðslu, auk allra annarra opinberra gjalda, eru útilokuð frá verkefninu vegna þess að þau eiga ekki rafdrifna bíla.

Í staðinn þykir eðlilegra að flytja 70 bíla yfir hafið með skipi og út aftur með tilheyrandi flutningskostnaði, líkt og kolefnissporið af því sé alls ekkert. Bílar sem væntanlega verða ekki skráðir inn í landið né borguð bifreiðagjöld af.

Stóra samhengið verður svo enn fáránlegra, eða kómískara, þegar fréttir berast að því að að minnsta kosti 50 einkaflugvélar munu flytja hina erlendu gesti til landsins. Þegar svo hugsað er til þess hversu mikla keyrslu er um að ræða á þessum innfluttu rafdrifnu bílum, þá er augljóst að það verða aðeins nokkur hundruð kílómetra á hvern bíl, í besta falli. Skutl frá Reykjavíkurflugvelli á hótel og mögulega frá hóteli í miðbænum í Hörpu og til baka. Mögulega með nokkra óbreytta embættismenn til Keflavíkur. Þetta litla skutl, örfáir kílómetrar í heildina á hvern bíl yfir þessa daga, mátti alls ekki gera í öðrum bifreiðum en rafdrifnum. Og til þess eru fluttir inn bílar sérstaklega og út aftur, til að flytja einkaþotufólkið, sem auðvitað skilur eftir sig rækilegt kolefnisfótspor, nokkra örstutta spotta.

Skinheilagleikinn ríður ekki við einteyming, né vanvirðingin við fólk og fyrirtækjarekendur í landinu.

Höfundur er leiðsögumaður. Pistillinn birtist fyrst í Facebook-hópnum Báknið burt.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×