Um­fjöllun, við­töl og myndir: FH - ÍBV 29-31 | Eyja­­menn mættu með sópinn í Krikann og eru komnir í úr­­slit

Kári Mímisson skrifar
Stuðningsfólk ÍBV mætti klárt í sigur.
Stuðningsfólk ÍBV mætti klárt í sigur. Vísir/Vilhelm

Þriðji leikur í undanúrslita einvígi FH og ÍBV fór fram í kvöld í Kaplakrika. ÍBV vann í æsispennandi framlengdum leik eftir vægast sagt mikla dramatík. Lokatölur í Kaplakrika urðu 29-31 fyrir ÍBV sem með sigrinum kláruðu þetta einvígi 3-0 og tryggðu farseðilinn í úrslitaeinvígið þar sem þeir mæta annað hvort Haukum eða Aftureldingu.

Leikurinn fór vel af stað í troðfullum Kaplakrika þar sem heimamenn í FH byrjuðu betur og skoruðu fyrstu tvö mörkin. Liðin skiptust á að skora til að byrja með fljótlega tók aðeins að skilja á milli liðanna og ÍBV náði undirtökunum. 

FH gerði hvað það gat til að stöðva ÍBV.Vísir/Vilhelm

Lið Eyjamanna barðist vel bæði í vörn og sókn. Á sama tíma mátti sjá að ungt og óreynt lið FH átti basli. Jóhannes Berg var kominn með tvær brottvísanir eftir aðeins 15 mínútna leik og liðið fór illa með nokkur dauðafæri. Staðan í hálfleik 13-15 fyrir gestina sem virtust hafa ágætist tök á leiknum.

ÍBV skoraði fyrsta markið í seinni hálfleik áður en FH-ingar voru búnir að jafna skömmu seinna í 17-17. Það var mikið jafnræði með liðunum næstu mínúturnar en þó hafði ÍBV alltaf frumkvæðið á meðan FH elti.

Þegar það voru um það bil tvær mínútur eftir voru Eyjamenn með tveggja marka forystu og útlitið gott fyrir gestina. FH-ingar fóru í sókn og sóttu víti sem Ásbjörn Friðriksson skoraði úr framhjá Petar Jokanovic, markverði ÍBV. 

Ásbjörn fór fyrir sínum mönnum eins og svo oft áður.Vísir/Vilhelm

Eyjamenn fóru í sókn og finna Kára Kristján Kristjánsson dauðafrían á línunni en Phil Döhler, í marki FH, varði meistaralega frá honum. Sigursteinn Arndal tók leikhlé fyrir FH sem var þarna mögulega á leið í sína lokasókn á þessu tímabili. 

FH nær að stilla í kerfi sem endar með því að Dagur Arnarsson brýtur á Jóhannesi Berg fyrir innan vítateigslínuna og víti réttilega dæmt. Aftur fór Ásbjörn á línuna en í þetta sinn sá Petar við honum. Frákastið endaði hins vegar hjá FH og FH með eitt tækifæri í viðbót. Ásbjörn, sem klúðraði víti á ögurstundu í Eyjum á sunnudaginn var, gat því stillt í eina sókn í viðbót. 

Þá sókn náðu FH-ingar að nýta þegar Jóhannes Berg sveif í gegnum teiginn og skoraði. Staðan eftir 60 mínútur 27-27 og því þurfti að framlengja.

Sigursteinn gat leyft sér að brosa þegar FH kom leiknum í framlengingu.Vísir/Vilhelm

Það var einhver skjálfti í báðum liðum í byrjun framlengingarinnar. Hver sóknin á fætur annarri fór forgörðum. Jóhann Birgir var fyrstur til að skora í framlengingunni þegar hann skoraði úr víti. Eyjamenn fara í sókn og virðast tapa boltanum þegar hann fer í fótinn á Degi Arnarssyni. 

Í staðinn fyrir að fá boltann fær Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, dæmdar á sig tvær mínútur fyrir einhver ólæti á bekknum. Rándýrt á þessum tímapunkti og FH manni færri næstu tvær mínúturnar. 

Einum færri nær FH að halda þetta út og vinna boltann en í stað þess að ná að skora verður einhver misskilningur hjá Einar Braga sem leggur boltann frá sér án þess að neitt hafi verið dæmt. Arnór Viðarsson er fyrstur að átta sig á þessu og skorar í tómt markið rétt áður en flautan gall. 

Staðan 28-28 eftir fyrri hálfleik framlengingar. Í síðari hálfleik framlengingarinnar náðu Eyjamenn algjörum yfirburðum og unnu að lokum 29-31 sigur og kláruðu um leið einvígið 3-0.

Eyjamenn fagna með sínu fólki.Vísir/Vilhelm

Af hverju vann ÍBV?

Mínúturnar tvær á Sigurstein og svo stuttu seinna þegar Einar Bragi leggur boltann frá sér og ÍBV skora í tómt markið. Þetta eru tvö risastór atvik á mikilvægasta tíma leiksins. FH er með rosalega mikinn byr í seglunum þegar þetta gerist og því miður þá held ég að þetta hafi kostað þá leikinn hér í dag.

Hverjir voru bestir?

Það voru ansi margir góðir í dag. Hjá FH var Jón Bjarni Ólafsson frábær á línunni, bæði í sókn og vörn. Jón Bjarni skoraði 5 mörk úr 6 skotum. Hjá Eyjamönnum var Dagur Arnarsson frábær og skilaði vel unnu verki af sér í dag. Rúnar Kárason átti einnig góðan dag eins og svo oft áður í vetur.

Rúnar naut sín.Vísir/Vilhelm

Hvað gekk illa?

Þetta var frábær handboltaleikur og virkilega erfitt að finna eitthvað sem var að. Magnús Egilsson átti slæman dag í dag fyrir FH. Leonard Harðarson spilaði ekki mikið en náði ekki að sýna sinn besta leik rétt eins og á sunnudaginn.

Hvað gerist næst?

FH er komið í sumarfrí og við þökkum þeim kærlega fyrir veturinn þar sem liðið skemmti okkur oft. ÍBV er komið í úrslitaleikinn og þarf núna að fylgjast vel með rimmu Aftureldingar og Hauka.

Eyjamenn eru komnir í úrslit.Vísir/Vilhelm

Kannski þessi Eyjaseigla sem fleytir okkur í gegnum þetta í lokin

„Smá spennufall held ég. Þetta var orðið virkilega þungt hjá okkur síðasta korterið af venjulegum leiktíma og fyrri parturinn af framlengingunni en svo er þetta einhvern veginn þannig að boltinn hrökk til okkar hér í lokin. Mér fannst þetta góður handboltaleikur og þetta var sennilega einn besti sóknarleikurinn okkar til þessa. Varnarleikurinn heilt yfir góður og markvarslan góð. Þetta eru svona fyrstu viðbrögð,“ sagði afar sáttur Erlingur Richardsson strax eftir þennan frábæra handboltaleik hér í kvöld við Vísi.

Erlingur þungt hugsi.Vísir/Vilhelm

Sóknarleikur ÍBV oft flottur eins og Erlingur sagði en það kom þó tímabil þar sem FH náði að halda þeim vel frá markinu og stöðvaði sóknir ÍBV vel. Hvað þótti Erlingi um þann kafla?

„Sérstaklega þegar þeir fóru í fimm einn, þá fórum við að ströggla. Fram að því fannst mér sóknarleikurinn vera góður en á móti fimm einn vorum við alveg glataðir lengi vel. Við fengum hinsvegar færi hjá Kára undir lokin þar sem við hefðum getað klárað þetta. Það var eins og að Kári hafði aldrei spilað mikilvægan leik, klikkar á tveimur dauðafærum á mikilvægum tímapunkti hér fyrir okkur. Hann fær útihlaup fyrir það á morgun.“

„Fór mikið um þig á þessum lokamínútum í venjulegum leiktíma þegar FH jafna?

Þá áttaði maður sig á því að þetta yrði erfitt og oft sveiflast þetta þannig. Þetta sveiflaðist með FH þarna á þessu augnabliki. Það fer aldrei vel um mann þegar þetta er svona en það er kannski þessi Eyjaseigla sem fleytir okkur í gegnum þetta í lokin.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira