Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja, segir í samtali við Vísi að falsaða heimasíðan sé vistuð í Bretlandi. Hann segir að fyrirtækið hafi óskað eftir því að hún verði tekin niður.
Á falsaðri vefsíðu Samherja stendur flennistórum stöfum á skjánum að fyrirtækið biðjist afsökunar. Í tilkynningu á hinum falsaða vef segir að fyrirtækið heiti betrumbót og samstarfi við yfirvöld vegna málsins.
„Þetta er fölsk síða sem er engan veginn á okkar vegum og fréttatilkynning sem send var út í gegnum þesssa fölsku heimasíðu tengist Samherja á engan hátt,“ segir Karl Eskil.
Hann segir forsvarsmenn fyrirtækisins hafa orðið varir við síðuna í morgun. Hann segir greinilegt að síðan hafi verið unnin af fagfólki.
„Það hefur verið óskað eftir því við þartilbær yfirvöld að þessi vefsíða verði tekin niður enda engan veginn á vegum fyrirtækisins,“ segir Karl Eskil.
„Þetta er vel upp sett heimasíða, greinilega gerð af fagfólki þar sem okkar stafagerð og lógó er notað. Þetta er alvöru heimasíða og gríðarlega mikil vinna lögð í þessa heimasíðu og send út fréttatilkynning í gegnum þessa síðu og það er náttúrulega eitthvað sem ekki er hægt að búa við og við höfum óskað eftir því að þessi síða verði tekin niður.“
