Valgerður Gréta Gröndal, sem starfað hefur sem ritstjóri tímaritsins síðan um áramótin, hefur sagt upp störfum. Mbl.is greindi fyrst frá málinu en í umfjöllun miðilsins voru rakin tíð ritstjóraskipti á miðlinum undanfarið ár.
Steingerður Steinarsdóttir var ritstjóri Vikunnar um margra ára skeið en var sagt upp störfum síðasta sumar og tók þá Guðrún Óla Jónsdóttir við til síðustu áramóta þegar hún sagði upp og Valgerður tók við, áður en hún hætti svo sjálf.
„Það er ekkert athugavert við það að það séu mannabreytingar í þessari stétt eins og í öllum öðrum stéttum,“ segir Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Birtings, í samtali við Vísi.
Valgerði hafi einfaldlega boðist störf á öðrum vettvangi og laun sem Birtingur geti ekki keppt við. „Þetta er ekki dýpra en það. Við getum heldur ekkert keppt við mjög háar launakröfur eins og eru bara á markaðnum.“
Fleiri ritstjóraskipti hafa átt sér stað á miðlum Birtings undanfarna mánuði. Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir sagði upp störfum í nóvember sem ritstjóri tímaritanna Hús og Híbýla og sagði Sigríður Dagný þá að félagið hefði verið í stafrænni þróun og eðlilegt að reksturinn tæki breytingum.
Nýr ritstjóri ekki ný inn um dyrnar
Sigríður segir umhverfi fjölmiðla hafa breyst gríðarlega undanfarin ár sem kallað hafi á ákveðnar breytingar af hálfu Birtings. Háar launakröfur og lítill markaður séu til vitnis um erfiðar rekstraraðstæður fjölmiðla og bendir Sigríður á fall Fréttablaðsins sem dæmi.
„Þegar maður hefur verið með fólk á ritstjórn sem er búið að starfa hjá félaginu í kannski 10-15 ár, og þú ferð í ákveðnar breytingar og þarft að laga strúktúrinn og launin að þá auðvitað gerist þetta og það tekur tíma að móta nýja ritstjórn.“
Birtingur hafi tekið upp rafrænar áskriftarleiðir og segir Sigríður þær hafa reynst vel. Aðspurð hver sé nýr ritstjóri Vikunnar segir Sigríður að hún komi ekki ný inn um dyrnar, heldur hafi starfað áður sem blaðamaður fyrir Vikuna.
„En ég ætla bara að leyfa henni að tilkynna þetta sjálf á sínum forsendum. Svo erum við að fá þrjá nýja blaðamenn inn. Blaðið skrifar sig ekki sjálft og fréttirnar ekki heldur.“