Tilkynnt var um úrslit atkvæðagreiðslu sem stjórn Eflingar boðaði til um úrsögn úr Starfsgreinasambandinu (SGS) í dag. Rúm sjötíu prósent þeirra sem tóku þátt greiddu atkvæði með úrsögninni. Kjörsókn var þó aðeins rétt um fimm prósent. Sólveig Anna fagnaði því að félagsfólk væri sammála forystunni um að ganga úr SGS.
Sólveig Anna og Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, hafa skipst á skeytum opinberlega undanfarin misseri en þau voru bandamenn í valdabaráttu innan verkalýðshreyfingarinnar þangað til í vetur. Upp úr sauð þegar SGS skrifaði undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins sem Sólveig Anna var ósátt við.
Vilhjálmur var spurður að því hvort að hann tæki ákvörðun Eflingar um úrsögn persónulega í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
„Nei, ég held fyrst og fremst að staðan sé þannig að ef þú gerir ekki eins og Sólveig Anna vill að aðrir eigi að gera þá verða þetta afleiðingarnar. Það er bara einfaldlega þannig. Það er svo sem það sem ég hef komist að. Ég er bara þannig gerður að ég læt ekki þvinga mig til samstarfs og fer í hluti sem eru gegn minni samvisku,“ sagði Vilhjálmur.
Tillagan nærri því felld vegna dræmrar þátttöku
Formaður SGS sagði að það hefði vakið athygli sína hversu dræm kjörsókn var í atkvæðagreiðslu Eflingar. Ekki hafi munað nema 34 atkvæðum að tillagan yrði felld þar sem aukinn meirihluta þyrfti til þess að samþykkja svo veigamiklar tillögur.
Spurður að því hvaða áhrif úrsögn Eflingar hefði á SGS sagði Vilhjálmur alltaf verra þegar félagseiningar smækkuðu. SGS væri þó enn stærsta aðildarfélag Alþýðusambandsins með um 44 þúsund félaga.
Landsbyggðarfélögin sem eftir standa ætli sér að vinna áfram þétt saman og ráðast í þau verkefni sem þarf að gera.
„Efling hefur ekki viljað starfa með okkur á liðnu ári þannig að það er í raun engin breyting þar á,“ sagði Vilhjálmur.