„Þetta er í raun og veru bara óbreytt staða, þessi fundur skilaði engu nýju inn í þetta samtal og kjaradeilan er ennþá í mjög hörðum hnút,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Hún segir engan samtalsgrundvöll fyrir hendi við samninganefnd sambandsins. „Hún sýnir að okkar mati engan samningsvilja.“
Miklar deilur hafa staðið á milli BSRB og Sambandsins. BSRB hefur sakað sambandið um að mismuna starfsfólki sínu með tilliti til launa og krafist þess að sambandið leiðrétti það.
Sambandið hefur hins vegar vísað þessu ásökunum á bug og hefur nú skorað á forystu BSRB að fara með málið fyrir dóm og óska eftir flýtimeðferð. Ef dómsniðurstaða sýnir fram á brot sveitafélaga þá verði laun starfsfólks leiðrétt, enda sé það stefna sveitafélaga að fylgja jafnréttislögum í hvívetna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Ekki hefur verið boðað til annars fundar á milli deiluaðila og segir Sonja að sáttasemjari hafi ekki talið tilefni til þess að boða til hans í ljósi þess hve langt ber á milli.
Verkföll hefjast því að óbreyttu hjá starfsfólki BSRB á leikskólum og grunnskólum þann 15. maí næstkomandi. Fara starfsmenn leikskóla í Kópavogi, Garðabæ og Mosfellsbæ í verkfall auk starfsfólks í grunnskólum Kópavogs, Seltjarnarness og Mosfellsbæjar.