Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Það sem mér finnst skemmtilegast við tískuna er hvað hún er breytileg og fer stundum heilu hringina. Það er svo gaman að við sem einstaklingar getum tjáð persónuleikann okkar í gegnum tísku. Í mínum augum er tíska huglæg og það er hægt að tjá hana nákvæmlega eins og mann lystir.
Það er hægt að segja heila sögu án þess að segja orð bara með litavali og klæðaburði.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Ég á svo margar fallegar flíkur sem ég elska en það sem kom fyrst upp í hugann minn voru kjólarnir mínir sem ég hef klæðst við hin ýmsu tilefni, til dæmis afmælin mín, útskriftin mín og önnur minnisstæð tilefni. Ég elska kjóla og þá sérstaklega litríka kjóla því það passar vel við persónuleikann minn. Mér finnst bæði þægilegt að vera í kjól og það er svo klæðilegt líka.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Ég er rosalega þægileg týpa og mér finnst fátt leiðinlegra en að vera í óþægilegum fötum. Þannig að dagsdaglega er ég mjög afslöppuð og klæði mig eftir skapi. Það er svo enginn millivegur myndi ég segja, ég er annað hvort mjög þægilega klædd eða fín. Allt frá mjúkum kósý göllum upp í mjög fína kjóla. Ég á líka mikið af íþróttafötum, eiginlega allt of mikið þar sem ég elska að hreyfa mig. Viðurkenni að ég þyrfti að vera duglegri að nota fínu fötin mín hversdagslega en ekki alltaf að hoppa í íþróttagallann.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já hann hefur breyst rosalega.
Ég hélt lengi að ég þyrfti að klæða mig þannig að fólk sæi ekki að ég væri feit, var aldrei í neinu þröngu eða uppháu svo fólk sæi líkama minn minna.
Ég keypti föt sem áttu að minnka mig, þá mjög víðar og dökkar flíkur. Samfélagið er með óskrifaðar reglur um hvernig ákveðnar líkamsgerðir eigi að klæða sig og ég vil sýna fram á að það þarf alls ekki að fylgja þessum óskrifuðum reglum.
Fyrir nokkrum árum fór mér að vera alveg sama um þessar reglur og fór að klæða mig eins og ég raunverulega vil. Ég varð óhrædd við að sýna líkama minn og fór að klæðast uppháum buxum, magabolum, þröngum og litríkum fötum.
Andstæðan við það sem feitum konum er sagt að gera, ég fór að taka pláss í fyrsta skipti en ekki að fela mig á bak við fötin.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Ég elska konur og hvernig þær tjá sig þegar kemur að tísku. Það eru ótrúlega margar konur sem ég sæki innblástur í og nota Instagram mikið til þess að finna aðrar konur sem eru með svipaða líkamsgerð og ég.
Það hjálpar mér mikið að sjá þær og spegla mig í leiðinni. Á sama tíma er það alls ekki einskorðað við líkamsgerðir, heldur konur yfir höfuð sem þora að fara sínar eigin leiðir og eru ekki óhræddar við að klæðast því sem þær vilja.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Nei, alls ekki og mér finnst að það ættu ekki að vera neinar reglur þegar kemur að tísku. Ég er svo rosalega opin þegar kemur að því, ég fylgi frekar innsæinu mínu og hvernig mér líður í flíkunum.
Ég er mjög trú sjálfri mér þegar kemur að einhverju sem mér líkar við og fer ekkert endilega eftir tískutrendum.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Líklegast fjólublái kjóllinn minn frá Hildi Yeoman. Mér finnst hann mjög öðruvísi og sniðið var mjög fallegt.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Fyrir mér er mikilvægt að líða vel í fötunum mínum og klæðast einhverju sem er valdeflandi.
Ég skammaðist mín alltaf fyrir línurnar mínar en í dag reyni ég að sýna þær frekar og hvet aðra til þess líka.
Líka að muna að stærðin á fötunum skilgreinir okkur ekki og mæli ég alltaf með að taka stærðina sem manni líður sem best í. Annars er besta ráðið sjálfstraust, að hlusta á innsæið, klæðast því sem maður fílar sjálfur og þannig geislar af okkur.

Hér má fylgjast með Írisi Svövu á Instagram.