Netárásir hafa verið gerðar á íslensk fyrirtæki og stofnanir í dag og í gær. Í gær lá vefur Alþingis niðri vegna álagsárásar. Í dag var svo gerð árás á vefþjóna Isavia og lá vefur félagsins niðri í skamma stund.
Guðmundur Arnar Sigmundsson, sviðsstjóri netöryggissveitarinnar CERT-IS segir vel hafa gengið að verjast þessum árásum.
„Flestar varnirnar grípa þetta bara allt og enginn hefur orðið var við eitt né neitt. Það hefur sannarlega orðið niðritími á ákveðnum síðum. Vefur Alþingis lá niðri í gær og það var ráðist á vef Isavia núna í morgun. hann datt niður í örskotsstund. Vefsíðan kom upp aftur næstum samtímis en full virkni stuttu síðar.“
Óvissustigi almannavarna var lýst yfir í gær vegna árásanna.
„Það þýðir svosem lítið fyrir almenninng. Það þýðir meira fyrir rekstraraðila. Það þýðir að ákveðin samhæfingarstjórn hefur verið virkjuð milli rekstraraðila nauðsynlegrar þjónustu, Ríkislögreglustjóra og CERT-IS. Þar sem að við höfum meiri formfestu á okkar upplýsingaflæði og samskiptum til þess að lágmarka viðbragðstímann á á öllum vettvöngum.
Hópurinn Noname57 hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni á netþjóna Isavia.
„Noname57 er hópur hakkara og aðgerðarsinna sem hafa mikið verið að herja á innviði á netinu með augljósan og mikinn stuðning við rússneskan málstað.“