Meghan tók í gær við verðlaunum á verðlaunahátíðinni Women of Vision þar sem framsýnar konur eru heiðraðar. Meghan tók við verðlaunum og hélt ræðu þar sem hún hvatti aðrar konur til þess að láta sig jafnréttisbaráttu varða.
Um var að ræða fyrsta skiptið sem hjónin koma fram saman opinberlega eftir krýningu Karls konungs. Vakti ræða Meghan mikla athygli.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að hjónin hafi sent frá sér tilkynningu vegna ljósmyndara sem hafi veitt þeim eftirför að verðlaunahátíðinni lokinni. Segja þau að hurð hafi skollið nærri hælum.
„Eftirförin entist í tvær klukkustundir og vorum við ítrekað nærri því að lenda í árekstrum við aðra ökumenn á veginum, gangandi vegfarendur og tvö lögregluþjóna,“ hefur miðillinn eftir tilkynningu hjónanna.
Móðir Harry, Díana Bretaprinsessa, lést árið 1997 í bílslysi í París þegar ökumaður bíls hennar missti stjórn á honum á miklum hraða þar sem hann reyndi að komast undan ljósmyndurum sem elt höfðu Díönu á röndum.
Harry hefur ítrekað sagt að hann hafi áhyggjur af því að sagan muni endurtaka sig í tilviki fjölskyldu sinnar og eiginkonu sinnar Meghan. Þá hefur hann ítrekað gagnrýnt fjölmiðla fyrir fréttaflutning þeirra af sér og fjölskyldu sinni.
