Þetta er á meðal þess sem kemur fram í viðtali við Kristrúnu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Frá því að Kristrún tók sæti á Alþingi í september 2021 hefur fylgi Samfylkingarinnar aukist um tæp sextán prósentustig. Hún tók við formennsku í október á síðasta ári. Fylgi flokksins mælist nú 25,7 prósent, tæpum sjö prósentustigum meira en fylgi Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hlaut 9,9 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum.
„Mitt verkefni, þegar ég tók við flokknum, var að gera hann stjórntækan. Ef mér tekst ekki að gera það þá hef ég brugðist,“ er haft eftir Kristrúnu.
Hún er jákvæð gagnvart samstarfi með Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri grænum.
„Ég held að við Katrín séum sammála um margt. Hún er í stöðu þar sem hún kemur ákveðnum hlutum ekki í gegn. Ég held að hún væri betur sett með mig í fjármálaráðuneytinu en Bjarna,“ segir Kristrún sem hefur, frá því að hún tók við formennsku, ekki útilokað ríkisstjórnarsamstarf við ákveðna flokka líkt og fyrirrennarar hennar höfðu gert.
ESB aftur á dagskrá ef þörf krefur
Annað sem virðist hafa fært flokknum aukið fylgi er að setja stuðning við Evrópusambandsaðild Íslands á ís. Varðandi þá ákvörðun segir Kristrún:
„Það þýðir ekkert að halda einhverju til streitu sem er kannski ekki vilji fyrir meðal þjóðarinnar. Ef hlutirnir snúast við og það verður knýjandi þörf og vilji hjá landsmönnum til að ganga inn í Evrópusambandið þá mun alls ekki standa á okkur. Við getum ekki keyrt stórt mál eins og þetta í gegn ef það eru einungis tveir stjórnmálaflokkar á þingi sem hafa áhuga á því.“
Kristrún sneri aftur á Alþingi í dag eftir fæðingarorlof. Hún kvaddi sér hljóðs við upphaf þingfundar og gagnrýndi forystuleysi ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem helst brenna á fólkinu í landinu. Nefndi hún í því samhengi verðbólgu, vexti, verkföll og alvarlegan vanda í húsnæðismálum.