Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali.
Karna Sigurðardóttir er stjórnandi hátíðarinnar, sem fer fram um 26. til 29. maí, sem er hvítasunnuhelgin.
„Það verður heimildamyndaveisla heldur betur, samverustundir í Skjaldborgabíói með mikilli dagskrá og gleðskap og partí, ásamt miklu fjöri og gaman. Þetta er svona nýjungagjörn íhaldssemi, sem hefur fylgd þessari hátíð. Það er alltaf einhver þróun í gangi og svo er líka viss rammi, sem hefur fylgd henni alveg frá upphafi,” segir Karna.

Alls verða sautján íslenskar heimildamyndir frumsýndar á hátíðinni, sumar mjög stuttar á meðan aðrar eru í fullri lengd. Einnig verða sýndar tvær myndir eftir heiðursgesti og þrjár alveg nýjar myndir eftir börn verða sýndar og ein gömul mynd frá Kvikmyndasafni Íslands, sem heitir bóndi og er eftir Þorstein Jónsson en Þorsteinn var einmitt fyrsti heiðursgestur Skjaldborgar 2007.
Það stefnir greinilega í glæsilega hátíð hjá ykkur?
„Já, já, það gerir það og alveg ótrúlega gaman að sjá bæði fjölbreytt efnistök og hvernig myndirnar munu fara vítt og breidd um landið og út fyrir landsteinana.”
Áttu ekki bara von á því að fólk streymi á Patreksfjörð þessa helgi?
„Jú algjörlega. Við erum alltaf að reyna að koma fólki fyrir, það er orðið svolítið erfitt að finna gistingu á Patreksfirði þegar fólk hrúgast þangað eina helgi en fólk verður bara að hafa til húsbílana og fellihýsin og drífa sig á Patreksfjörð,” segir Karna.