Kolbeinn Tumi Daðason ræddi við Guðjón og fékk hann til að segja frá ferli sínum sem íþróttafréttamaður. Það voru líka sýnd skemmtileg augnablik frá tíma hans í sjónvarpinu.
Guðjón sagði frá fyrstu skrefum sínum í starfinu en hann byrjaði fyrst að lýsa handboltaleikjum 1991 en fékk síðan tækifærið að koma inn í sjónvarpsfréttirnar árið 1992.
Guðjón hefur tekið þátt að skapa margar nýjungar í íþróttafréttum í sjónvarpi og þar á meðal má nefna þegar Stöð 2 byrjaði með reglulegar íþróttafréttir í sjónvarpi, þegar hann var að fjalla um íþróttir í morgunsjónvarpinu og þegar hann lýsti leikjum eins og Frakkland-Ísland á Stade de France árið 1999.
Það má alls ekki gleyma Sumarmótunum sem hann hefur skilað á sinn einstaka hátt og búið til ógleymanlegt myndefni af framtíðaratvinnumönnum sögunnar.
Guðjón rifjaði líka upp það þegar hann fjallaði ítarlega um heimsmeistaramótið á Íslandi árið 1995. Þar sagði hann frá sögu sem ekki margir þekkja.
„Árið 1995 var heimsmeistaramótið í handbolta haldið á Íslandi. Ég og Stefán Jón Hafstein vorum fengnir til þess að vera með tuttugu mínútna þátt á hverjum einasta degi í tvær vikur. Við fórum nýjar leiðir, greindum íslenska liðið í tætlur, vorum með viðtöl og vorum svolítið krefjandi,“ sagði Guðjón Guðmundsson.
„Við vorum svolítið grimmir, ég skal viðurkenna það. Þetta slær í gegn og virkaði. Umfjöllunin varð meiri. Þetta gekk nú svo langt á sínum tíma að við fengum morðhótanir á meðan heimsmeistaramótinu stóð,“ sagði Guðjón.
„Fólki fannst við ganga nærri íslenska landsliðinu sérstaklega og hvað þeir væru að gera. Í framhaldinu held ég að megi segja að þá fóru allir þættir í þessa sömu átt og við höfðum verið að gera,“ sagði Guðjón og hrósaði snillingunum Stefáni Jón Hafstein og Þorsteini Joð Vilhjálmsson sem vann með honum þegar HM í handbolta 2011 var á Stöð 2 Sport.
Hér fyrir neðan má sjá allt Ísland í dag þegar Gaupi kvaddi í beinni í gær.